Aukin útbreiðsla kórónuveirunnar og verðstríð á olíumarkaði milli Sádi-Araba og Rússa hefur valdið gríðarlegum titringi á fjármálamörkuðum síðustu klukkustundir.
Áhrifin tóku að koma fram seint í gærkvöldi þegar ljóst var að ekki hefði tekist samkomulag á vettvangi OPEC-ríkjanna að draga úr framleiðslu og lækkaði Sádi-Arabía stórlega verð á þeirri olíu sem hún flytur út. Ríkið er stærsti olíuframleiðandi heims og stendur undir ríflega 16% af þeirri olíu sem seld er á heimsmarkaði. Rússar koma þar næstir á eftir með ríflega 11%.
Verðstríðið hefur leitt af sér 30% verðhrun á olíumörkuðum. Stendur tunnan af Brent-norðursjávarolíu nú í 33,57 dollurum en fyrir mánuði var verðið um 54 dollurum. Í upphafi árs stóð tunnan í 66 dollurum.
Hefur Financial Times það eftir Bob McNally hjá Rapidan Energy Group að neikvæð þróun á fjármála- og olíumörkuðum hafi ekki verið eins samtvinnuð síðan á fjórða áratug síðustu aldar. „Verðhrunið er rétt að byrja,“ bætir hann við.
Í kauphöllinni í Tókíó hafa hlutabréf lækkað um 5% og í Shanghaí nemur lækkunin 2,41%. Japanska jenið hækkaði hins vegar um 3,6% og hefur ekki verið hærra gagnvart dollar í meira en þrjú ár. Fjárfestar leita gjarnan í jenið þegar óróleiki verður mikill á mörkuðum og líta á gjaldmiðilinn sem öruggt skjól frá sviptivindum í fjármálaheiminum.
Viðskipti með framvirka samninga tengda S&P 500 hlutabréfavísitölunni í Bandaríkjunum benda til þess að svipað verði uppi á teningnum á Wall Street þegar markaðir opna vestanhafs síðar í dag. Fyrrnefndir samningar hafa lækkað um 5% en samkvæmt skilmálum geta þeir ekki sveiflast meira í einstaka viðskiptum.
Ásamt japanska jeninu sótti gullverð í sig veðrið. Þá hafa fjárfestar augljóslega kosið að stefna fjármunum sínum í bandarísk ríkisskuldabréf. Þannig lækkaði ávöxtunarkrafa á 30 ára skuldabréfum og fór hún í fyrsta sinn undir 1%. Þá fór krafan á 10 ára bréfum undir hálft prósent. Bendir Financial Times á að ekki séu liðnir nema 18 dagar síðan ávöxtunarkrafan stóð í 1,5% en að nú sé hætt við að skuldabréfaflokkurinn leiti á svipuð mið og ríkisskuldabréf í Evrópu og Japan og verði neikvæð.