Viðskipti stöðvuð tímabundið á Wall Street

Viðskipti voru stöðvuð tímabundið í kauphöllinni í New York eftir …
Viðskipti voru stöðvuð tímabundið í kauphöllinni í New York eftir mikla dýfu S&P500 vísitölunnar við opnun markaða. AFP

Viðskipti voru stöðvuð tímabundið í kauphöllinni í New York aðeins fimm mínútum eftir að markaðir opnuðu vestanhafs. Hafði S&P 500 vísitalan lækkað um 7%, en með því stöðvast viðskipti sjálfkrafa í 15 mínútur. Lækkunin í Bandaríkjunum er sú mesta síðan árið 2008.

Lækkun á mörkuðum víða um heim teygir sig nú til Bandaríkjanna, en hráolíuverð var í frjálsu falli og lækkaði upphaflega um 30%, en sú lækkun hefur aðeins gengið til baka og stendur nú í um 20%. Kemur lækkunin í kjölfar þess að samningar Rússa og Sam­taka olíu­fram­leiðslu­ríkja (OPEC) um þak á framleiðslu olíu runnu út í sandinn. Bætist það ofan á áhyggjur fjárfesta vegna útbreiðslu kórónuveirunnar með tilheyrandi samdrætti í spurn eftir vöru og þjónustu sem og vandamála í framleiðsluferlum sem komið hafa upp vegna veirunnar.

S&P 500 og Dow Jones-vísitölurnar sýna nú um 6% lækkun, en í Evrópu er lækkunin enn meiri það sem af er degi. Hefur FTSE 100 vísitalan í Bretlandi lækkað um 8,3%, DAX-vísitalan í Þýskalandi farið niður um 8,35% og CAC 40 í Frakklandi niður um 8,51%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK