Talsmenn flugfélagsins Virgin Atlantic hafa staðfest að þeir hafi neyðst til að halda úti áætlunarflugi þar sem vélar hafa verið hálftómar vegna afbókana í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar.
Virgin Atlantic heldur vélunum á lofti í þeim tilgangi að halda þeim lendingarleyfum sem félagið á á stórum flugvöllum á borð við Heathrow í London í Bretlandi, að því er segir á vef BBC.
Samkvæmt evrópskri löggjöf þurfa flugfélög að skila inn leyfum ef áætlunarflug er ekki í gangi.
Grant Shapps, samgöngumálaráðherra Bretlands, hefur biðlað til framkvæmdastjórnar ESB um að slaka á þessum kröfum um leyfin á meðan baráttan við útbreiðslu kórónuveirunnar stendur sem hæst.