Salt Pay kaupir 96% í Borgun

Alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay co. Ltd. hefur keypt samtals 95,9% í Borgun hf. Kaupir félagið 63,5% af Íslandsbanka og rúmlega 30% hlut af Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka til Kauphallarinnar.

Kaupverðið er ekki gefið upp, en fram kemur að það hafi óveruleg áhrif á rekstur bankans. „Leiðrétt fyrir rekstri Borgunar hefðu þóknanatekjur samstæðu Íslandsbanka fyrir árið 2019 dregist saman um 13%, rekstrargjöld lækkað um 13% og kostnaðarhlutfall lækkað um fjögur prósentustig. Salan hefur jákvæð áhrif á eiginfjárhlutföll bankans og lausafjárhlutföll lækka lítillega, en eru þó enn vel yfir markmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila,“ segir í tilkynningunni.

Salan er gerð með fyrirvara um að fjármálaeftirlit Seðlabankans veiti samþykki fyrir virkum eignarhlut kaupanda. Formlegt söluferli Borgunar hófst í byrjun árs 2019 og var það í umsjón svissneska ráðgjafarfyrirtækisins Corestar partners og fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.

Samtals starfa í dag um 130 manns hjá Borgun og skiptist starfsemin í þrennt. Í fyrsta lagi kortaútgáfa en fyrirtækið gefur út kreditkort fyrir Íslandsbanka og Aur. Í öðru lagi í færsluhirðingu en starfsemin fer einkum fram í sex löndum; Íslandi, Bretlandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Króatíu. Og í þriðja lagi í útlán, en þau fara m.a. fram með vöru- og þjónustukaupalánum í gegnum fjölda seljenda.

Í tilkynningunni segir að Salt Pay sé alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki með starfsemi í fjórtán löndum. Fyrirtækið sérhæfir sig í vörum og þjónustu sem tengjast vildarþjónustu og CRM-lausnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK