Stjórnendur Icelandair Group hafa sent út tilkynningu til starfsmanna fyrirtækisins þar sem fólk er hvatt til þess að taka sér launalaust leyfi og fullnýta fæðingarorlof, eigi það þess nokkurn kost.
Í bréfinu, sem mbl.is hefur undir höndum, bendir Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs fyrirtækisins, á að fordæmalausar aðstæður séu nú uppi í efnahagskerfum heimsins sem hafi haft gríðarleg áhrif á eftirspurn eftir flugi og ferðalögum.
„Okkar félag er þar engin undatekning og við verðum að bregðast við með því að minnka flugframboð félagsins a.m.k. tímabundið.“
Segir hún að auki að minni framleiðsla kalli á færri starfsmenn og að nauðsynlegt sé að leita allra leiða til að lækka kostnað fyrirtækisins og bregðast þar með við minnkandi tekjum.