Það varð strax ljóst við opnun Kauphallarinnar í Ósló hversu mikil áhrif og víðtæk ferðabann það, sem forseti Bandaríkjanna hefur lagt á Evrópu að Bretlandi undanskildu, mun hafa á flugmarkaðinn.
Bréf Norwegian Air Shuttle sem hafa verið í frjálsu falli síðustu daga féllu um 17% þegar viðskipti hófust. Hafa bréf félagsins lækkað enn og nemur fall bréfanna nú rúmum 20%. Um áramót var gengi bréfanna ríflega 40. Það þýðir að markaðsvirði félagsins hefur rýrnað um nærri 82% á tæpum tveimur og hálfum mánuði.
Nýverið greindi félagið frá því að það hygðist fella niður 3.000 flug á komandi vikum og samsvaraði það um 15% samdrætti í áætlunum þess. Nú er viðbúið að enn fleiri flug verði felld niður með tilheyrandi áhrifum á rekstur þess.
Sem stendur er markaðsverð félagsins aðeins 0,3 af bókfærðu eigin fé þess.
Fréttin var uppfærð kl. 9:31.