10.000 starfsmenn skandinavíska flugfélagsins SAS verða sendir í ótímabundið leyfi næstu daga. Frá þessu greindi Rickard Gustafson, forstjóri félagsins, á blaðamannafundi í dag. „Spurn eftir flugi hefur meira og minna þurrkast út vegna kórónuveirunnar,“ sagði Gustafson á fundinum og bætti við að aðgerðirnar væru því nauðsynlegar.
Um er að ræða 90% starfsmanna fyrirtækisins. Enn eru um 1.100 starfsmenn við vinnu enda enn þörf á einhverjum starfsmönnum á meðan stórir flugvellir á borð við London og Frankfurt eru opnir.
Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, sagði í viðtali við Aftonbladet að ekki væri hægt að útiloka að sænska ríkið, sem á 15% hlut í SAS, þyrfti að bjarga flugfélaginu. Fulltrúar félagsins funduðu með sænskum stjórnvöldum á föstudag.