Skandinavíska flugfélaginu SAS hefur verið tryggð tveggja milljarða danskra króna ábyrgð frá ríkissjóðum Svíþjóðar og Danmerkur, en ríkin fara með 30% eignarhald í flugfélaginu. Samsvarar það 41 milljarði íslenskra króna. Nemur ábyrgðin sambærilegri upphæð og markaðsvirði félagsins er nú í kauphöllinni.
Í yfirlýsingu frá danska fjármálaráðherranum kemur fram að SAS sé mikilvægur hluti af aðgengi og samgönguneti landanna tveggja.
Markaðsvirði SAS hefur lækkað mikið undanfarið, en á einum mánuði hafa bréfin lækkað um 45%. Bréf félagsins hækkuðu hins vegar um 3,37% í viðskiptum í dag. Er markaðsvirði bréfa SAS í dag um 3,2 milljarðar sænskra króna, eða rúmlega þrír milljarðar danskra króna.