Gestir Kringlunnar eru 30-45% færri daglega eftir að samkomubann tók gildi á mánudag en á sama tíma miðað við fyrri ár. Eftir að samkomubann tók gildi nú á mánudag sækja 6.500-7.000 manns Kringluna heim daglega en á hefðbundnum vikudegi komu áður 10 til 12 þúsund manns í Kringluna.
Afgreiðslutímar einstaka verslana eru styttri en áður, þá sérstaklega um helgar en netverslun hefur aukist talsvert, að sögn Sigurjóns Arnar Þórssonar, framkvæmdastjóra Kringlunnar.
„Þetta er náttúrlega gríðarlegt áfall fyrir verslun og þjónustu, það er engin spurning, en það góða er að menn trúa því að þetta sé tímabundið. Ég sé það ekki fyrir mér að menn muni leggja upp laupana í stórum stíl en þetta er engu að síður gríðarlegt högg,“ segir Sigurjón.
Strax upp úr samkomubanni fóru forsvarsmenn Kringlunnar að merkja fækkun gesta. Almenn áhrif þess á Kringluna eru þau að ekki er þörf á að beita fjöldatakmörkunum að Kringlunni sjálfri miðað við hefðbundna aðsókn. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum er litið á sameign Kringlunnar með sama hætti og göngugötu Laugavegarins. Um allar verslanir og þjónustuaðila Kringlunnar gildir þó það að í hverju þjónusturými mega aldrei vera fleiri en 100 manns og þarf stærð rýmisins að leyfa tveggja metra fjarlægð á milli fólks.
Kringlan hefur gert fleiri ráðstafanir, til dæmis er Ævintýraland lokað á meðan á samkomubanni stendur og hafa Almannavarnir óskað eftir því að ekki verði staðið fyrir viðburðum í göngugötu á meðan samkomubannið er í gildi.
„Við reynum að bregðast við ástandinu og lifa með því tímabundið. Við erum mjög upptekin af sótthreinsun og þrifum á snertiflötum og pössum því vel upp á að umhverfið sé hreint. Svo er spritt hér í hverri einustu verslun og víða í göngugötum líka,“ segir Sigurjón.
Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott en viðskipti í netverslun Kringlunnar, Kringlan.is, hafa aukist umtalsvert.
„Við sáum strax að verslun á netinu jókst mjög. Við bjóðum líka upp á að sækja þjónustu í þjónustuverinu svo kaupmenn geta sett í boxin og það er opið frá átta á morgnanna til miðnættis svo viðskiptavinir geta nálgast sínar vörur þar ef þeir vilja,“ segir Sigurjón.