Tveimur hótelum Icelandair Hotels verður tímabundið lokað fljótlega. Um er að ræða Konsúlat Reykjavík í Hafnarstræti og Reykjavík Marina við höfnina. Þetta staðfestir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is stendur til að loka Konsúlat Reykjavík 21. mars og Reykjavík Marina 23. mars. Það fékkst ekki staðfest hjá Magneu.
Starfsmenn hótelanna fá sambærileg störf hjá öðrum hótelum keðjunnar á meðan lokunin varir en hótel Icelandair Hotels eru á annan tug talsins.
„Við erum einfaldlega að meta stöðuna hjá okkur dag frá degi og bregðast við þeim hröðu breytingum sem eru að eiga sér stað. Við færum til starfsmenn þessara tveggja eininga í sambærileg störf á öðrum einingum tímabundið,“ segir Magnea í skriflegu svari. Hún kaus að tjá sig ekki frekar um málið að svo stöddu.
Fleiri hótelum hefur verið lokað hérlendis undanfarið en Morgunblaðið greindi frá því í gær að Center Hotel hygðust loka fimm hótelum af sjö.