Íslandsbanki hefur tilkynnt um vaxtalækkun, en hún kemur í kjölfarið á stýrivaxtalækkun Seðlabankans um 0,5 prósentustig sem kynnt var í gær. Þetta er í annað skiptið í vikunni sem bankinn tilkynnir um vaxtalækkun, en það gerði hann einnig á mánudaginn.
Fyrri vaxtalækkun tók gildi í dag, en sú sem tilkynnt er í dag tekur gildi 1. apríl.
Samkvæmt tilkynningu frá bankanum verða breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána lækkaðir um 0,3 prósentustig. Yfirdráttarvextir lækka um 0,25-0,50 prósentustig, óverðtryggðir breytilegir kjörvextir lækka um 0,25 prósentustig, innlánsvextir bankans lækka um 0-0,50 prósentustig og Ergo bílalán og bílasamningar lækka um 0,30 prósentustig.