Stærstu heildsölur landsins horfa nú til þess að eiga fjögurra til fimm mánaða birgðir af helstu vörum fyrir heimilin í landinu, í stað tveggja til þriggja mánaða birgða áður.
Ólafur Ó. Johnson, framkvæmdastjóri Ó. Johnson & Kaaber, segir að fyrirtækið hafi brugðist við aukinni spurn eftir helstu vörum og aukið lager sinn. Hann ítrekar að ekkert hökt sé á framboði vara hjá birgjum fyrirtækisins og ekkert bendi til vöruskorts neins staðar frá.
Spurður að því hvaða vörur hafi selst hraðast nefnir hann t.d. Palmolive-sápur og tilbúna rétti frá Findus.
Ari Fenger forstjóri 1912, sem rekur heildsöluna Nathan og Olsen, Ekruna og Emmessís, segir í Morgunblaðinu í dag að birgðastaðan sé góð. „Við höfum verið með þriggja mánaða birgðir en í ljósi mikillar sölu höfum við verið að bæta í og reynt að auka aðeins birgðir miðað við eðlilega stöðu. Við horfum þá til 4-5 mánaða birgða.“
Vigdís Sjöfn Ólafsdóttir, fjármálastjóri heildsölunnar Garra, sem þjónustar veitingamarkaðinn, hótel, mötuneyti og skólaeldhús, segir að fyrirtækið sé vel birgt enda sé önnur staða hjá þeim en heildsölum sem sinna dagvörumarkaði.