„Þetta hefur óveruleg áhrif í ljósi þeirrar stöðu sem þegar var komin upp með þau víðtæku ferðabönn sem þegar hafa tekið gildi,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.
Ásdís var spurð að því hvaða áhrif ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í ferðabanni ESB hefði á rekstur flugfélagsins. Ekki náðist í Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, við vinnslu fréttarinnar.
Ákvörðunin var tekin á ríkisstjórnarfundi í morgun og tilkynnt Evrópusambandinu í kjölfarið. Ferðabanninu er ætlað að draga úr útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í Evrópu og gildir í 30 daga eftir að það tók gildi 17. mars.
Bannið mun ekki hafa bein áhrif á vöruflutninga heldur nær það einungis til ferðamanna sem koma frá löndum utan Schengen-svæðisins. Áfram verður heimilt að ferðast milli Schengen-ríkja sem ekki hafa lokað innri landamærum sínum. Bretar eru ennþá skilgreindir sem ríkisborgarar ESB og því áfram hægt að fljúga til og frá Bretlandi.