Þremur hótelum Icelandair Hotels verður lokað tímabundið frá og með morgundeginum. Þetta staðfestir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, í samtali við mbl.is.
Hótelin sem um ræðir eru Reykjavík Natura við Reykjavíkurflugvöll, Canopy á Smiðjustíg og Alda á Laugavegi. Þegar hafði verið tilkynnt lokun tveggja hótela, Konsúlats Reykjavík í Hafnarstræti og Reykjavík Marina við höfnina.
Magnea segir starfsfólk ekki missa vinnuna þrátt fyrir lokunina, en starfsmenn verða færðir til vegna lokunar. Aðspurð útilokar hún þó ekki að starfshlutfall einhverra kunni að verða minnkað. „Við hjálpumst öll að í þessu, en þetta verður bara að koma í ljós.“