Áhrif stýrivaxtalækkana Seðlabanka Íslands síðasta árs eru mun meiri en sú hækkun á þjónustugjöldum fyrirtækja um 0,15 prósentustig sem Valitor hefur tilkynnt um. Því er fyrirtækið að taka á sig hluta þessarar lækkunar og kaupmenn hluta.
Þetta kemur fram í svari Valitors við fyrirspurn mbl.is vegna tilkynningar fyrirtækisins um hækkun þjónustugjalda. Í henni kemur fram að reynt hafi verið að takmarka hækkunina eins og kostur er í ljósi aðstæðna, en hjá henni verði ekki komist. Hækkunin tekur gildi eftir tvær vikur.
Í svar Valitors segir að fyrirtækið hafi hækkað þóknun vegna færsluhirðingar einungis á þeim viðskiptavinum sem fá uppgert mánaðarlega og í íslenskum krónum. „Þessi breyting á sér langan aðdraganda en kornið sem fyllti mælinn er skarpar stýrivaxtabreytingar Seðlabankans á skömmum tíma sem Valitor treystir sér ekki til að taka alfarið á sig,“ segir í svarinu.
Þar kemur einnig fram að í þeim tilvikum sem kaupmenn fá uppgert mánaðarlega hefur Valitor notið ávöxtunar af veltu þeirra kaupmanna frá þeim tíma sem greiðsla er móttekin frá korthafa og þangað til hún er gerð upp við viðkomandi kaupmann. Kaupmenn hafi notið þessarar tilhögunar í formi hagstæðari þjónustugjalda.
„Sú forsendubreyting hefur hins vegar orðið að stýrivextir hafa lækkað ört á síðustu vikum og misserum með tilheyrandi tekjutapi fyrir Valitor. Sem dæmi má nefna að á innan við einu ári hafa stýrivextir lækkað úr 4,5% í 1,75%. Lækkunin er mun meiri horft til lengra tímabils. Áhrif af stýrivaxtalækkunum Seðlabanka síðasta árs eru mun meiri en sú hækkun sem Valitor tilkynnir núna. Því er Valitor að taka á sig hluta þessarar lækkunar og kaupmenn hluta,“ segir í svarinu.
„Rétt er að taka fram að þessi hækkun tekur einungis til þeirra kaupmanna sem eru með samninga um mánaðarleg uppgjör á kreditkortum, en þeir eru mikill minnihluti kaupmanna. Að auki býðst þeim flestum að fara í tíðari uppgjör til að mæta mögulegum skorti á lausafé en þá gegn hærri þóknun sem speglar að Valitor nýtur engra ávöxtunar af veltu þeirra.“