Vilja vera með í Allir vinna

Jón Trausti Ólafsson.
Jón Trausti Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

Jón Trausti Ólafsson formaður Bílgreinasambandsins vill að bílgreinarnar verði hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda til stuðnings fyrirtækjum í landinu, vegna áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar. Leggur Jón Trausti sérstaka áherslu á að átakinu „Allir vinna“ sem fór af stað árið 2009 og stóð til ársins 2015, verði hleypt af stokkunum á nýjan leik. Yfir 15,5 milljarðar króna voru endurgreiddir af innheimtum virðisaukaskatti vegna viðhalds og byggingar húsnæðis í gegnum það átak á sínum tíma, en bílgreinin var ekki innifalin á þeim tíma.   „Ég tel mjög mikilvægt núna að bílgreinin komi inn í þessa áætlun, en hún var ekki með í pakkanum eftir síðasta hrun, árið 2008.  Bílgreinin er mjög mannaflsfrek grein, og þetta myndi„ styðja við aðra tekjuöflun ríkisins. Það kemur inn tekjuskattur og virðisaukaskattur af varahlutum. Við viljum tryggja að sem mest verði að gera á bílaverkstæðum næstu þrjá mánuði,“ segir Jón Trausti.

Unnið að viðgerðum á bifreiðaverkstæði Kópavogs.
Unnið að viðgerðum á bifreiðaverkstæði Kópavogs. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn bílaumboða í Reykjavík eru hátt í 1.000 talsins.  Á fjórða þúsund manns starfa í bílgreinum og fyrirtækin skipta hundruðum.

Önnur hugmynd sem Jón Trausti vill koma á framfæri er að tollgengi janúar- og febrúarmánaðar verði notað til útreiknings á vörugjöldum, enda hafi krónan veikst mikið að undanförnu sem hefur í för með sér mikinn kostnaðarauka fyrir bílgreinina.

Mega ekki hverfa inn í svarta hagkerfið

Spurður um  hvaða viðbrögð sambandið hafi fengið frá yfirvöldum við þessum hugmyndum, segir Jón Trausti þau frekar jákvæð. Ekkert sé hinsvegar vitað fyrr en ríkisstjórnin kynni aðgerðir sínar.

Eftir hrunið 2008 segir Jón Trausti að menn hafi horft á bílgreinarnar hverfa inn í svarta hagkerfið svokallaða. „Það viljum við ekki sjá núna. Við viljum sjá allar bílaviðgerðir fara fram á viðurkenndum verkstæðum og að ráðningarsambandi sé haldið við sem flesta starfsmenn. Þetta eru stórir vinnustaðir með mörgum starfsmönnum, ekki bara bifvélavirkjum heldur líka fólki sem vinnur við bókhald, tollafgreiðslu, og margvíslega þjónustu.“

Jón Trausti bendir á í þessu samhengi að útlit sé fyrir að fólk muni ferðast í meira mæli innanlands í sumar, og því sé mikilvægt að sinna viðhaldi, og hafa bílinn í góðu ásigkomulagi.

Jón Trausti segir að bílgreinarnar séu mjög tengdar ferðaþjónustunni. Því þýði minni eftirspurn þar, minni eftirspurn hjá bílgreinum. „Við vonum að Ísland komist hratt í gegnum þetta, en við erum líka háð því að önnur markaðssvæði geri það líka. Við fylgjumst vel með, og stillum starfsemi okkar í samræmi við það sem er að gerast.“

Hætt er við minni bílasölu á árinu vegna kórónuveirufaraldursins.
Hætt er við minni bílasölu á árinu vegna kórónuveirufaraldursins. Ómar Óskarsson

Almennt segir Jón Trausti að mikilvægt sé fyrir íslenskt atvinnulíf að allir komi að björgunaráætluninni. Sveitarfélög með fasteignagjöld, lífeyrissjóðir með lífeyrisgreiðslur osfrv. „Við viljum líka sjá frestun kjarasamningshækkana sem koma til framkvæmda 1. maí fram á haustið. Öllum kostnaðaraukum og gjöldum þarf að fresta meðan atvinnulífið gengur í gegnum þetta ástand,“ segir Jón Trausti og tekur undir með fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að betra sé að gera meira en minna.

Umboðin hafa dregið úr pöntunum

Spurður um samskipti við bílaframleiðendur og birgja erlendis segir Jón Trausti að íslensku bílaumboðinu hafi dregið úr pöntunum eins og hægt sé. Hinsvegar hafi verið búið að framleiða mikið af þeim bílum em voru á leiðinni til landsins fyrir sumarið. „Það tekur tíma að hægja á aðfangakeðjunni. Bílaverksmiðjur eru að loka hver af annarri. BMW, Volkwagen og Mercedes Benz munu til dæmis loka næstu tvær vikur. Varahlutakeðjunni verður hinsvegar haldið opinni, sem er mjög mikilvægt. En það er verið að draga mikið úr allri framleiðslu í þessum geira.“

Jón Trausti segir að framleiðendur séu núna að vinna í að tryggja sína stöðu, en eftir það megi eiga von á stuðningspökkum frá þeim til sinna umbjóðenda, eins og íslenskra bílaumboða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK