101 sagt upp hjá Isavia í dag

Isavia hefur sagt upp 101 starfsmanni.
Isavia hefur sagt upp 101 starfsmanni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Isavia hefur sagt upp 101 starfsmanni, auk þess sem 37 til viðbótar verður boðið áframhaldandi starf í minnkuðu starfshlutfalli til framtíðar. Þá verður sumarráðningum fyrirtækisins fækkað verulega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en forstjóri þess fundar nú með starfsfólki á fjarfundi þar sem farið er yfir stöðuna.

Flestar uppsagnirnar verða á Keflavíkurflugvelli í ljósi samdráttar sem hefur orðið í flugsamgöngum þar í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. Félagið segist hins vegar ætla að vera vel undirbúið að „blása til sóknar á ný þegar dregur úr áhrifunum af Covid-19“.

„Við komumst því miður ekki hjá því að grípa til uppsagna, en þær ná eingöngu til starfa á sviðum þar sem verkefnum fækkar í óákveðinn tíma,“ er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra félagsins, í tilkynningu. Segir hann jafnframt að félagið taki mið af góðri lausafjárstöðu, sem sé nú betri en nokkru sinni fyrr, og því séu viðbrögðin í takt við það og reynt að standa vörð um störf.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Ljósmynd/ISAVIA

„Áhrifin af samdrættinum hafa mest áhrif á framlínustörf okkar á Keflavíkurflugvelli, m.a. í flugvernd, farþegaþjónustu og bílastæðaþjónustu. Að öðru leyti bíður okkar fjöldi verkefna sem snúa m.a. að því að byggja upp innviði félagsins,“ er haft eftir Sveinbirni. Segir hann að félagið sé meðvitað um óvissu næstu mánuði og að staðan verði endurskoðuð með reglubundnum hætti. „Við þurfum með öllum ráðum að tryggja að aðgangur félagsins að lausu fé dugi þar til hjólin fara að snúast á ný. Við þökkum öllu því góða fólki sem nú er að hverfa frá fyrirtækinu fyrir þeirra störf og óskum þeim jafnframt velfarnaðar.“

Móðurfélag Isavia ásamt dótturfélögunum Isavia innanlands og Isavia ANS munu að svo stöddu ekki nýta sér úrræði stjórnvalda sem snúa að greiðslu atvinnubóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar. Kemur fram í tilkynningunni að uppsagnir þar séu til að bregðast við minnkandi umsvifum til langs tíma, en úrræði stjórnvalda eru fyrst og fremst til að bregðast við skammtímaáhrifum faraldursins. Fríhöfnin mun nýta úrræði stjórnvalda sem gerir félaginu kleift að ráðast ekki í uppsagnir á fastráðnum starfsmönnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK