Ákveðið hefur verið að samþætta rekstur Air Iceland Connect og Icelandair. Air Iceland Connect er dótturfélag Icelandair Group og sinnir innanlandsflugi og áætlunarflugi til Grænlands. Starfsemi félaganna verður sameinuð, svo sem flugrekstrarsvið, sölu- og markaðsmál, mannauðsmál, fjármálasvið og upplýsingatækni. Félögin verða þó áfram með aðskilin flugrekstrarleyfi og áhafnir Air Iceland Connect verða áfram starfsmenn þess félags.
Staða framkvæmdastjóra Air Iceland Connect verður samhliða lögð niður. Árni Gunnarsson, núverandi framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, mun taka við sem framkvæmdastjóri Iceland Travel á næstu vikum, en Björn Víglundsson mun láta af störfum. Árni mun vinna náið með stjórnendum Icelandair að samþættingu rekstrar flugfélaganna og mun Björn áfram stýra Iceland Travel á meðan á þessari vinnu stendur, að því er segir í tilkynningu.
Árni Gunnarsson hefur starfað hjá Air Iceland Connect frá árinu 1999, fyrst sem sölu- og markaðsstjóri, og sem framkvæmdastjóri félagsins frá árinu 2005. Hann hefur áratugareynslu af stjórnunarstörfum í ferðaþjónustu, bæði á Íslandi og í Þýskalandi, og er með M.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Augsburg í Þýskalandi. Iceland Travel er dótturfélag Icelandair Group og sérhæfir sig í skipulagningu ferða fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi.
„Í því ástandi sem nú ríkir erum við að leita allra leiða til hagræðingar í rekstri Icelandair Group og teljum við mikil tækifæri í því að samþætta flugrekstur okkar enn frekar. Um leið og ég þakka Árna Gunnarssyni fyrir mikilvægt framlag við uppbyggingu Air Iceland Connect á síðustu 15 árum, býð ég hann velkominn til starfa á nýjum vettvangi innan félagsins. Á sama tíma vil ég þakka Birni Víglundssyni fyrir mjög gott starf og mikið framlag til Icelandair Group samstæðunnar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í fréttatilkynningu.
Air Iceland Connect flutti 280 þúsund farþega á síðasta ári og starfsmenn félagsins voru 206 talsins um síðustu áramót.