Greiða minna fyrir Icelandair Hotels

mbl.is/Ómar

Lokagreiðsla vegna sölu 75% hlutar í Icelandair Hotels og tengdum fasteignum til Berjaya Land Berhad verður greidd í dag, en ekki 31. maí eins og áður hafði verið tilkynnt. Afhending á bréfum Icelandair Hotels fer fram í kjölfarið. Þá verður ný stjórn skipuð og þar tilnefnir Icelandair Group einn stjórnarmann og Berjaya tvo.

Vegna þeirrar efnahagslegu óvissu sem ríkir vegna útbreiðslu COVID-19-veirunnar er það samkomulag milli aðila að lokagreiðslan verði lækkuð frá því sem áður var tilkynnt og mun hún nú nema 1,5 milljörðum króna (10,3 milljónum Bandaríkjadala). Heildarkaupverð 75% hlutar er um 6,5 milljarðar króna (45,3 milljónir Bandaríkjadala) miðað við núverandi gengi.

Í fréttatilkynningu frá Icelandair frá 25. febrúar kom fram að heild­ar­kaup­verð 75% hlut­ar í Icelanda­ir Hotels er rúm­ir sjö millj­arðar króna (55,3 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala) á nú­ver­andi gengi. Berjaya hef­ur þegar greitt Icelanda­ir Group 1,9 millj­arða (15 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala). Eft­ir­stöðvar kaup­verðsins nema því um 5,1 millj­arði króna (40,3 millj­ón­um Banda­ríkja­dala).

Veruleg rýrnun á 8 mánuðum

Þegar tilkynnt var um frágang sölunnar í desmber kom fram að heildar­greiðslur til Icelanda­ir Group vegna kaup­anna væru 84 millj­ón­ir dala. Aftur á móti kom fram í tilkynningu um söluna í júlí í fyrra að heild­ar­virði Icelanda­ir Hotels og tengdra fast­eigna næmi 136 millj­ón­um Banda­ríkja­dala. Það þýðir að 75%, sem Berjaya kaupir, er metið á 102 milljónir Bandaríkjadala. Að því gefnu hefur virði 75% Icelandair Hotels rýrnað um 56,7 milljónir dala á átta mánuðum. Ekkert er hins vegar minnst á það í frétt mbl.is frá þeim tíma að samið hafi verið um að greiddar yrðu 102 milljónir dala fyrir 75% hlut. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir í fréttatilkynningu: „Það er ánægjulegt að ljúka sölu á Icelandair Hotels á þessum tímapunkti. Salan styður við stefnu okkar að leggja fyrst og fremst áherslu á kjarnastarfsemi Icelandair Group, flugrekstur, sem hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Við erum stolt af því að hafa leitt uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu á undanförnum árum og þróun og vöxtur Icelandair Hotels var mikilvægur liður í því. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Icelandair Hotels fyrir vel unnin störf við uppbyggingu gæðahótela sem bjóða framúrskarandi þjónustu og sanna íslenska upplifun. Þrátt fyrir þá óvissu sem nú ríkir í heiminum er ég sannfærður um að framtíðarhorfur íslenskrar ferðaþjónustu eru góðar. Kaup Berjaya endurspegla þá sýn og staðfesta gæði og virði hótelfélagsins sem verður helsti styrkur þess þegar kemur að því að grípa þau tækifæri sem gefast þegar fer að rofa til á ný.“

Berjaya Land Berhad er skráð félag í Malasíu og starfar meðal annars í hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Berjaya Land Berhad og tengd félög eru með um 4.700 starfsmenn og nema árlegar tekjur samstæðunnar 1,76 milljörðum Bandaríkjadala. Stofnandi og stjórnarformaður Berjaya Group er Vincent Tan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK