Hlýddu Víði og keyptu páskaeggin fyrr

Hert samkomubann hefur hægt á páskaeggjaframleiðslu hjá Nóa Siríus. Það …
Hert samkomubann hefur hægt á páskaeggjaframleiðslu hjá Nóa Siríus. Það stefnir í betri sölu en í fyrra og mun fyrirtækið gera hvað sem það getur til að anna eftirspurn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hert samkomubann hafði áhrif á framleiðslu páskaeggja í ár en eftirspurn eftir páskaeggjum er meiri en í fyrra að mati tveggja framkvæmdastjóra, hvors hjá sínum sælgætisframleiðanda. Líklegt er að einhverjar tegundir páskaeggja seljist upp fyrir páskadag.

„Salan hefur gengið merkilega vel og svo virðist sem það sé aldrei meiri eftirspurn en í ár, við erum að hamast og leita út í öll horn til að geta gert fleiri páskaegg en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir Auðjón Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri markaðs- og sölu­sviðs Nóa-Siríusar. Hert sam­komu­bann sem tók gildi 24. mars raskaði skipu­lagi fram­leiðslu fyr­ir­tæk­is­ins og hægðist allverulega á henni. 

Röskunin varð enn meiri hjá Freyju en þar var framleiðslu páskaeggja alfarið hætt þegar hert samkomubann tók gildi. „Við tókum meðvitaða ákvörðun um að gefa í í páskaeggjaframleiðslunni ef það skyldi koma til strangari reglna varðandi samkomubann,“ segir Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Freyju. 

Mánudagurinn 23. mars var því síðasti framleiðsludagur páskaeggja hjá Freyju þar sem það var einfaldlega of dýrt að halda úti framleiðslu eftir að hert samkomubann tók gildi að sögn Péturs. „En við náðum að framleiða eins og við höfum framleitt síðustu ár að mestu leyti.“

Ríseggin frá Freyju eru með þeim vinsælustu frá sælgætisframleiðandanum. Engin …
Ríseggin frá Freyju eru með þeim vinsælustu frá sælgætisframleiðandanum. Engin páskaegg hafa verið framleidd hjá Freyju síðan hert samkomubann tók gildi 24. mars og búast má við að nokkrar tegundir seljist upp fyrir páska. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki gert ráð fyrir Íslendingum sem ætluðu að vera erlendis

Hjá Nóa-Siríusi er áætlun um páskaeggjaframleiðslu gerð um það bil ár fram í tímann og segir Auðjón að ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim fjölda Íslendinga sem annars væru erlendis þessa páskana í núgildandi áætlun. „Fólk vill gera sér glaðan dag sem maður skilur mjög vel, maður er sjálfur í því ástandi að mann langar að hafa það svolítið huggulegt þessa dagana,“ segir Auðjón. 

Útlit er fyrir töluverða aukningu á sölu páskaeggja í ár. „Við vinnum lengur og meira en búist var við og gerum allt til að eiga sem mest fyrir Íslendingana, það er leiðinlegt þegar fólk fær ekki páskaeggin sín,“ segir Auðjón og bætir við að reynt verði eftir bestu getu að anna eftirspurn. Tvær nýjungar eru í boði hjá Nóa Siríusi í ár; Tromp-egg og Krisp-egg, og hafa báðar tegundir rokið út. Hvað stærðir varðar segir Auðjón að salan sé nokkuð jöfn. „Það kemur á óvart að fólk þarf jafnt á tvisti og risaeggi að halda.“ 

Lagerinn hjá Freyju tæmdist í upphafi vikunnar

Pétur hjá Freyju segir einnig að það stefni í betri sölu en í fyrra en hún dreifist öðruvísi en oft áður. „Hún fór miklu fyrr af stað. Venjulega fara 80% af markaðnum í verslanir í dymbilviku en salan fór miklu fyrr af stað í ár, sérstaklega eftir að Víðir okkar bað fólk að vera fyrr á ferðinni í páskaverslun, þá hlýddi fólk Víði og fór út í búð og keypti sín egg.“

Pétur segir það samt sem áður ekki ákjósanlega stöðu að geta ekki framleitt fleiri egg. Lagerinn hjá Freyju tæmdist síðustu helgi þar sem búið er að aka öllum páskaeggjum í verslanir. Pétur leyfir sér að fullyrða að einhverjar tegundir muni seljast upp fyrr en síðar. „Allar verslanir eru að hringja í okkur og biðja um meira en því miður getum við ekkert gert,“ segir hann. 

Djúpuegg og Rís-egg eru til að mynda að verða uppseld eftir því sem Pétur best veit, en þau voru einmitt hátt skrifuð hjá smökkurum matarvefjar mbl.is síðustu páska.

„Þau eru öll reyndar gríðarlega vinsæl en það má alveg búast við því að einhverjar tegundir seljist upp fyrir páska,“ segir Pétur. Það er í sjálfu sér markmiðið þar sem Freyja vill sporna gegn matarsóun. „Við höfum verið með verkefni í gangi að minnka rýrnun eftir páska og að kasta peningum á glæ. Það er ömurlegt hvað það er mikið sem fer í ruslið og við höfum verið með það verkefni síðustu tvö til þrjú ár að minnka það, meðal annars með því að vera með færri tegundir í boði.“

Pétur býst við því að færri páskaegg komi til baka til Freyju eftir páska en í fyrra. Sjálfur ætlar hann að leggja sitt af mörkum og gæða sér á sterku djúpu-eggi um páskana, sem er hans uppáhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK