Djúp lægð næstu eitt til tvö árin

Ferðamenn skoða Strokk.
Ferðamenn skoða Strokk. mbl.is/Árni Sæberg

Miklar líkur eru á að rekstrarlægðin sem kórónuveiran veldur í ferðaþjónustu hér á landi verði djúp og muni vara næstu eitt til tvö árin. Þetta er meðal þess sem lesa má í skýrslunni „Áhrif COVID-19 á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja“ sem ráðgjafarsvið KPMG hefur unnið með Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála.

Staða fyrirtækja í ferðaþjónustu var almennt veikari en í öðrum meginatvinnugreinum landsins áður en faraldurinn skall á, hvort sem litið er til fjárstyrks eða arðsemi. Neikvæð efnahagsleg áhrif faraldursins verða mest á þessa atvinnugrein og mun hún illa standast álagið að óbreyttu, að því er kemur fram í tilkynningu.  

Mikil fjárfesting í íslenskri ferðaþjónustu og lítil arðsemi hefur kallað á verulega lántöku í greininni. Samkvæmt tölum Seðlabankans hækkuðu skuldir hennar við viðskiptabankana þrjá um 84% frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2019 á meðan tekjur uxu um 3%. Heildarskuldir greinarinnar eru nú metnar á um 300 milljarða króna.

Ferðamenn við Sæbraut.
Ferðamenn við Sæbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reksturinn á leiðinni í gjörgæslu

„Rekstur fjölmargra ferðaþjónustufyrirtækja er á leiðinni í gjörgæslu þar sem uppspretta tekna hefur nú algjörlega þornað upp,“ segir í skýrslunni.

Bent er á að 23.300 launþegar hafi verið skráðir í greininni í janúar síðastliðnum. 713 starfsmönnum félaga í ferðaþjónustu og félaga tengdra ferðaþjónustu var sagt upp í mars. Þá hafa um 11 þúsund starfsmenn skráð sig í hlutastarf samkvæmt fyrstu tölum Vinnumálastofnunar, sem jafngildir um fjögur þúsund ársverkum á tímabilinu 15. mars til 31. maí.

Ferðamenn bíða í hríð eftir rútu.
Ferðamenn bíða í hríð eftir rútu. mbl.is/​Hari

Svartsýnisspáin felur í sér 69% samdrátt

„Þeir starfsmenn sem eftir sitja verja líklega mestum sínum tíma í að vinda ofan af og endurgreiða ferðir sem búið var að bóka án þess þó að fá þóknun fyrir þá vinnu. Fastur rekstrarkostnaður og endurgreiðslur eru því að tæma sjóði og lánaheimildir þannig að mörg félög munu standa tæpt þegar líður að næstu mánaðamótum,“ segir í skýrslunni.

„Þegar möguleg þróun og samspil ólíkra áhrifavalda er rýnd dýpra og lengra fram í tímann má vera ljóst að stuðningsaðgerðir stjórnvalda þurfa að beinast að því að bæta uppsafnað fjárhagslegt tjón þeirra fyrirtækja sem talin voru lífvænleg fyrir afleiðingar heimsfaraldursins.“

Sett eru fram þrjú dæmi um mögulega þróun á komu ferðamanna til landsins á næstu mánuðum og árum til að greina hvernig ólík fyrirtæki í ferðaþjónustu geta tekist á við yfirvofandi hrun í heimsóknum ferðamanna til landsins. Bjartsýnisspáin felur í sér 43% samdrátt á þessu ári, svokölluð grunnsviðsmynd felur í sér 57% samdrátt á árinu og svartsýnisspáin felur í sér 69% samdrátt.

Þarf að endurhugsa stuðningsaðgerðir

„Það er vandasamt verkefni á tímapunkti sem þessum að setja fram spá um mögulega þróun ferðamanna á Íslandi næstu mánuði og ár. Við stöndum nú í miðjum efnahagshamförum sem eiga sér enga hliðstæðu til að geta dregið gagnlegan lærdóm af og því engin tölfræðilíkön eða söguleg gögn sem mynda traustan grunn að spá sem þessari,“ segir í skýrslunni.

„Hins vegar má vera ljóst að það er til lítils gagns að leggja grunn að stuðningsaðgerðum stjórnvalda og endurskipulagningu fyrirtækja í ferðaþjónustu á óraunhæfum forsendum því um leið og undirliggjandi forsendur bresta þarf að endurhugsa stuðningsaðgerðir og taka upp endurskipulagningaráætlanir fyrirtækjanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK