Stjórn Arion banka leggur til að ekki verði greiddur út arður vegna síðasta árs og að hagnaður ársins leggist við eigið fé bankans. Þetta kemur fram í boðun hluthafafundar sem send var á Kauphöllina í morgun. Þetta er breyting frá fyrri áformum stjórnarinnar, sem hafði lagt til 10 milljarða arðgreiðslu á árinu.
Íslandsbanki og Landsbankinn höfðu áður tilkynnt að stjórnir bankanna myndu ekki leggja til að greiddur yrði út arður. Eru þeir bankar að öllu eða mestu leyti í eigu ríkisins, en Arion banki er hins vegar skráður á markað.
Hagnaður Arion banka í fyrra nam 1,1 milljarði, en niðurfærsla eigna og erfiðleikar í rekstri dótturfélaga sem eru í söluferli hafði neikvæð áhrif á afkomuna. Var afkoman í fyrra 6,5 milljörðum lakari en árið 2018.
Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans sendi fyrr í mánuðinum frá sér yfirlýsingar í kjölfar nýlegra funda nefndarinnar í tengslum við áhrif af útbreiðslu kórónuveirunnar. Var þar lögð áhersla á að arðgreiðslum og öðrum útgreiðslum eigin fjár yrði stillt í hóf og minnt á að Fjármálaeftirlitið gæti takmarkað slíkar útgreiðslur að öllu leyti við tiltekin skilyrði.
Hafði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri áður sagt á vaxtaákvörðunarfundi að forsenda fyrir því að Seðlabankinn hefði aflétt 2% kröfu um sveiflujöfnunarauka og lækkað stýrivexti væri að bankarnir greiddu ekki út arð. Sagði hann það algjört skilyrði fyrir því að eiginfjáraukanum hefði verið slakað að peningum yrði haldið áfram inni í bönkunum. „Við munum fylgjast grannt með því,“ sagði Ásgeir á fundinum.