Öll starfsemi Bláa lónsins á Svartsengi hefur verið lokuð undanfarið eftir að ferðamenn hættu að streyma til landsins og samkomubann þrengt. Hún verður áfram lokuð til að minnsta kosti 26. maí. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og þróunarsviðs Bláa lónsins, segir stöðuna verða dekkri með hverjum deginum.
„Þetta er áætluð dagsetning út frá því sem yfirvöld hafa þegar talað um. Svo verður að koma í ljós hvernig framhaldið verður. Staðan er einfaldlega þannig að öll starfsemi á Svartsengi er lokuð, búin að vera það undanfarið og verður það til 26. maí í það minnsta,“ segir Helga í samtali við mbl.is.
Bláa lónið sagði upp 164 starfsmönnum í lok mars og þá sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, að með aðgerðunum væri verið að vernda þau 600 stöðugildi sem eftir stæðu. Hann sagði einnig að fyrirtækið myndi nýta sér hlutastarfaleið ríkisstjórnarinnar og bjóða rúmlega 400 starfsmönnum skert starfshlutfall.
Þær aðgerðir væru nauðsynlegar til að koma Bláa lóninu í gegnum þá stöðu sem væri uppi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem gerir það að verkum að fyrirtækið verður tekjulaust í apríl og líklega maí.
Spurð hvort fyrirtækið muni þurfa að segja upp fleiri starfsmönnum á næstunni segir Helga að engar ákvarðanir hafi verið teknar um það.
Helga segir ljóst að ef ferðaþjónustan fari hægt af stað aftur þá verði starfsemi Bláa lónsins væntanlega opnuð en þó með takmörkuðum hætti, í það minnsta til að byrja með. „En auðvitað skoðum við alla möguleika. Við erum að reyna að teikna upp sviðsmyndir og átta okkur á þessari erfiðu stöðu en því miður hefur hún versnað mikið síðustu vikur, sér í lagi sé horft til sumarmánaðanna sem fram undan eru og inn í haustið.“
„Það er bara fullkomin óvissa eins og staðan er nákvæmlega núna.“