Hafa aðlagað sig gjörbreyttu landslagi

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.
Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo. mbl.is/Rósa Braga

Miklar breytingar hafa orðið á starfsemi og dreifikerfi Icelandair cargo eftir að áhrifa af útbreiðslu kórónuveirunnar fór að gæta og stærstur hluti af áætlunarflugi Icelandair var felldur niður. Stór hluti af frakt félagsins hafði áður verið fluttur með áætlunarfluginu.

Þrátt fyrir þessa miklu röskun hefur félagið náð að halda uppi stærstum hluta flutningskerfisins og flytur í dag um 70% af því sem áður var flutt, á meðan aðeins eru farin 5% af farþegaferðum sem áður voru á áætlun.

Gjörbreytt landslag eftir hrun í áætlunarflugi

Áður en kórónuveiran fór að dreifa úr sér flutti Icelandair cargo á milli 65 og 70% af frakt sinni með áætlunarflugi Icelandair. Var flogið með fraktina á tugi áfangastaða félagsins, en stærstur hluti fraktarinnar er ferskur fiskur sem þarf að berast daglega til viðskiptavina bæði í Ameríku og í Evrópu.

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair cargo, segir í samtali við mbl.is að þegar áætlunarflugið hafi dottið niður í næstum ekki neitt hafi málið farið að vandast nokkuð. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í farþegaflugi var enn þá mikil eftirspurn eftir fraktflugi og segir hann að mikilvægt sé að halda þeim markaði til framtíðar og koma afurðum út á markaðinn. Þar horfi félagið til langtímaáhrifa, enda skipti það kaupendur miklu máli að geta treyst á að fá vörur reglulega.

Icelandair cargo flytur enn um 70% af því sem áður …
Icelandair cargo flytur enn um 70% af því sem áður var flutt, þrátt fyrir að yfir 90% af farþegaflugum Icelandair hafi verið felld niður, en Icelandair cargo flutti 65-70% af frakt sinni í áætlunarfluginu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Flogið á stærri flugvélum þrátt fyrir færri farþega

Þrátt fyrir að fáir farþegar séu alla jafna um borð í vélum flugfélagsins dag hvern var ákveðið að notast heldur við Boeing 767-vélar en 757-vélarnar, sem eru nokkru minni. Ástæðan fyrir því er að í stærri vélunum er hægt að koma fyrir mun meiri frakt að sögn Gunnars, en þar sem fáir farþegar eru um borð með lítinn farangur er hægt að fylla vélina að mestu með frakt, allt að 30 tonnum í hverri ferð. „Það mætti segja að þetta sé fraktflug með örfáum farþegum,“ segir Gunnar.

Þurftu að bæta við sérstökum fraktferðum

Áætlunarflugið dugar hins vegar ekki til að sinna markaðinum, enda hafa 90-95% af áætlunarflugi verið felld niður. Vegna þessa flýgur Icelandair cargo nú 1-2 ferðir á dag til Boston í Bandaríkjunum og 1-2 ferðir á dag til Liege í Belgíu, en það eru 4-5 ferðir aukalega frá því sem félagið flaug áður í sérstöku fraktflugi fyrir tíma kórónuveirunnar. Frá Liege er farmurinn svo fluttur með bílum um Evrópu en frá Boston flogið á aðra áfangastaði í Bandaríkjunum.

Undanfarið hefur Icelandair cargo einnig tekið að sér sérhæfð verkefni, …
Undanfarið hefur Icelandair cargo einnig tekið að sér sérhæfð verkefni, svo sem að fljúga þrisvar til Kína að sækja lækningavörur. mbl.is

„Alveg magnað í þessu árferði“

„Með þessu náum við að halda uppi stórum hluta þess sem áður var, eða um 70%. Það er alveg magnað í þessu árferði að hafa náð þessu,“ segir Gunnar, en félagið hefur þurft að endurskipuleggja sig algjörlega í kringum breyttar aðstæður og það að hafa misst af tugum áfangastaða sem áður var hægt að senda beint á.

Í stað þess að geta sent beint á þessa tugi áfangastaða virka nú Boston og Liege sem dreifingarstöðvar inn í Bandaríkin og Evrópu að sögn Gunnars. Þetta hefur auðvitað einhver áhrif og segir Gunnar að víða nái félagið ekki að afgreiða eitt, tvö eða þrjú tonn og það hafi allt saman sitt að segja að lokum. Hins vegar hafi þeim tekist að afgreiða meira en tvo þriðju af því sem áður var og segist hann ánægður með þann sveigjanleika sem félagið hafi sýnt við þessar aðstæður.

Nýr kaupendahópur að ferskum fiski

Sem fyrr segir er ferskur fiskur það sem félagið flytur mest af frá Íslandi. Gunnar segir þetta kröfuharðan markað. Áður fyrr hafi aðallega verið selt á veitingastaði, en með samkomubanni víðast hvar hafi sá markaður hrunið. Hins vegar hafi sala til stórmarkaða aukist mikið og þannig tekist að halda sölunni úti.

Segir hann að krafa kaupenda sé eftir sem áður sú sama: Fá fiskinn í toppgæðum og í þannig magni að sem minnst fari til spillist. „Að það komi á hverjum degi eitthvað frekar en að það komið mikið í fá skipti,“ segir hann. Áreiðanleiki afhendingar skipti þarna öllu máli, óháð því hvað gangi á, og í gegnum þessar hremmingar hafi það að mestu tekist.

Stærstur hluti af því sem Icelandair cargo flytur út er …
Stærstur hluti af því sem Icelandair cargo flytur út er ferskur fiskur. Kaupendahópurinn þar hefur gjörbreyst undanfarið og eru nú stórmarkaðir í stað veitingastaða. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Íslenski fiskurinn er nú í sterkari stöðu“

Gunnar segir að ekki hafi öllum tekist að bregðast svona við. Þannig hafi flutningur á ferskum fisk frá Noregi til Bandaríkjanna hrunið í kjölfar þess að áætlunarflug þangað var allt fellt niður. Það hafi hins vegar styrkt stöðu Íslands sem útflutningslands. „Íslenski fiskurinn er nú í sterkari stöðu að hafa þetta afhendingaröryggi óháð því hvað gengur á,“ segir hann. Þetta veki í raun ákveðnar minningar frá Eyjafjallajökulsgosinu. „Þá tókst okkur alltaf að koma fiskinum á markað hvað sem gekk á,“ segir hann og hlær.

Á móti útflutningnum flytur félagið nú mikið af lyfjum og lækningavörum til landsins. Þá séu fluttir ýmsir varahlutir og ferskvara eins og áður fyrr. Þar sé meðal annars grænmeti stór hluti. „Það er allt í eðlilegum gír. Sumir vöruflokkar hafa minnkað en aðrir aukist,“ segir Gunnar og býst við að þegar fram í sækir jafnist það aftur út.

Efnisorð: Icelandair
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK