„Framboð og eftirspurn í sinni tærustu mynd“

Gylfi Magnússon segir ástandið á bandarískum hráolíumarkaði vera fordæmalaust, eins …
Gylfi Magnússon segir ástandið á bandarískum hráolíumarkaði vera fordæmalaust, eins og svo margt annað á þessari stundu. mbl.is/Hari

„Það er bókstaflega verið að borga fólki fyrir að afhenda ekki olíu,“ segir Gylfi Magnússon, viðskiptafræðingur og dósent við Háskóla Íslands, um sögulegt verðhrun bandarískrar hráolíu. Hann segir engin fordæmi fyrir slíkri stöðu á olíumarkaði.

Verð á banda­rískri hrá­ol­íu, West Texas In­ter­media­te, sem af­henda á í næsta mánuði hef­ur hríðlækkað í dag og sérstaklega síðustu klukkustundir. Ekki er um að ræða Brent-olíu sem notuð er á evrópskum mörkuðum.

„Eftirspurnin hefur hrunið og við vitum auðvitað hvers vegna, það er minni notkun á olíu í flugi sérstaklega en örugglega líka í siglingum og akstri. Framboðið er töluvert meira en notkunin þannig að það hrúgast upp olía og í Bandaríkjunum stefnir allt í það að birgðastöðvar og hreinsistöðvar sem vinna neysluafurðir úr hráolíu, að þær hreinlega geti ekki tekið á móti öllu sem til þeirra berst og við það hrynur verðið,“ útskýrir Gylfi og bætir við:

„Ég held að þetta framboð og eftirspurn í sinni tærustu mynd.“

Notkunin minnkar hraðar en framleiðsla

Engin fordæmi eru fyrir þessari stöðu á olíumarkaði að sögn Gylfa. Þetta komi þó fyrir á raforkumarkaði, sérstaklega í Evrópu þegar mikið er framleitt af rafmagni með vind- og sólarorku á sama tíma og notkun er lítil. Þá fái neytendur bókstaflega borgað fyrir að taka við orku. En öfugt við rafmagn þá er yfirleitt hægt að geyma olíu, nema þegar allt fyllist eins og núna þegar „það er bókstaflega að flæða upp úr.“

Stutt er síðan olíuríki heims, OPEC+, komust að sögulegu samkomulagi um að minnka framleiðslu á jarðefnaeldsneyti um 9,7 milljónir tunna á dag í maí og júní. Samkomulagið var gert í von um meira samræmi í framboði á eftirspurn.

„OPEC-ríkin eru ekki þekkt fyrir mikla samstöðu og Bandaríkjamenn hafa verið að reyna beita sér fyrir hærra olíuverði en það greinilega tókst ekki þrátt fyrir að samkomulag hafi náðst um að minnka framleiðslu, notkunin hefur minnkað enn hraðar,“ segir Gylfi.

Mun óhjákvæmilega skila sér út í verðlag hér á landi

Hann telur óhjákvæmilegt að verðhrunið muni hafa þýðingu hér á landi þó svo að það muni ekki nýtast í flugsamgöngum. Væntanlega muni lægra verð hjálpa bæði útgerðarmönnum sem og bílaeigendum.

„Olíufélögin komast nú ekki hjá því að hleypa einhverju af þessu inn í verðið hérna. Þeir kaupa nú reyndar frá Statoil í Noregi og verðið er eitthvað aðeins annað þar. Þar er ekki alveg saman brýna vandamál að það bókstaflega flæði upp úr tönkunum en það er almennt lítill verðmunur á olíu út um allan heim og hún hefur lækkað annars staðar líka. Þannig að þetta hefur óhjákvæmilega áhrif hér fyrr eða síðar, og líklega mjög fljótlega hjá þeim sem flytja inn olíu,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK