Verð á bandarískri hráolíu, West Texas Intermediate, fór niður fyrir 10 Bandaríkjadali tunnan í dag og hefur ekki verið lægri síðan 1986, á sama tíma og birgðir safnast upp vegna lítillar eftirspurnar sökum kórónuveirufaraldursins.
Olíuverð lækkaði hratt í dag og var tunnan á WTI-olíu 14,5 Bandaríkjadalir í morgun og fór undir 10 dali ig hefur olíuverð lækkað um rúm 41% frá því á föstudag.
Sérfræðingar segja að samkomulag á milli helstu olíuframleiðenda heims fyrr í mánuðinum hafi haft lítil áhrif á olíuverð vegna þess að milljarðar jarðarbúa komast ekki til vinnu og því eftirspurnin sama og engin. Sérfræðingur á olíumarkaði segir að líkt og í Bandaríkjunum safnist upp birgðir af hráolíu í Mið-Austurlöndum og á meðan flutningskostnaðurinn er hár sé eftirspurnin engin.
Fréttin hefur verið uppfærð eftir að verð á olíutunnu á WTI-olíu fór undir 10 Bandaríkjadali.