„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að jafnvel vinsælustu veitingastaðir fari í þrot á tímum sem þessum, því miður,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar um gjaldþrot veitingastaðarins Bryggjunnar brugghúss.
„Það er einfaldlega þannig að rekstrarumhverfi þessara staða er mjög erfitt og hefur verið það í nokkur ár. Á þessu hefur verið vakin rækileg athygli undanfarin 2-3 ár í tengslum við kjarasamninga.“
Jóhannes segir að engir veitingastaðir eigi gott með að komast í gegnum heimsfaraldur COVID-19, ekki frekar en ferðaþjónustufyrirtæki. Nauðsynlegt sé að veitingastöðum og ferðaþjónustufyrirtækjum sé gert kleift að hætta allri starfsemi án þess að fara í þrot á meðan ástandið gengur yfir. Jóhannes segir sömuleiðis að það hve vel Ísland nær að koma sér aftur á lappirnar eftir efnahagslægðina velti á því hversu vel ferðaþjónustan muni standa í lok hennar.
Undanfarin tvö til þrjú ár hefur kúnnahópur veitingastaða hérlendis verið 60 - 70% erlendir ferðamenn og því hafa ferðatakmarkanir mikil áhrif á þá eins og önnur fyrirtæki innan ferðaþjónustu. Til þess að þjónusta einungis innlendan kúnnahóp þyrftu staðirnir að hagræða og breyta sínum rekstri gífurlega, að sögn Jóhannesar. Því mun ástandið líklega einungis batna lítillega þegar dregið verður úr samkomubanni, 4. maí næstkomandi.
„Sum veitingahúsin hafa mjög mikið af íslenskum fastakúnnum, önnur hafa það ekki. Jafnvel hagnaðarprósenta þeirra veitingastaða sem hafa marga íslenska kúnna byggir á þessu samblandi af Íslendingum og ferðamönnum. Þegar ferðamennirnir hverfa hverfur hagnaðurinn úr fyrirtækin og kostnaðurinn verður eftir. Þetta er verulega erfitt fyrir veitingahús og verður ómögulegt fyrir mörg þeirra. Ég held að það liggi alveg fyrir.“
Jóhannes segir að vandi ferðaþjónustufyrirtækja, og því veitingastaða, sé annars kyns en sá sem aðrar atvinnugreinar standa frammi fyrir.
„Þetta eru fyrirtæki sem byggja á eftirspurn erlendra ferðamanna sem hefur stöðvast alls staðar í heiminum og það er alls óvíst hvenær fer aftur í gang. Við sjáum það til dæmis að flugfélög í veröldinni eiga mjög erfitt um þessar mundir og eru sum byrjuð að fara í gjaldþrot. Þegar flug hefst að nýju verður það í einhverri smækkaðri mynd miðað við það sem við eigum að venjast hér. Þar við bætist að við vitum ekki hve langan tíma það mun taka fyrir almenning í okkar markaðslöndum að vilja fara af stað í ferðalög aftur.“
Það þýðir að eftirspurn á háönninni, sumrinu og mánuðunum þar í kring, er alveg horfin.
„Ferðaþjónustan á því ekki möguleika á því að ná í árstekjum sínum fyrr en á næsta ári í fyrsta lagi, í kringum næsta sumar. Það þýðir að þetta er tólf mánaða vandi af nánast fullkomnu tekjuleysi fyrir heila atvinnugrein. Það verður að bregðast við því að okkar mati með sértækum aðgerðum til þess að koma til móts við þennan sértæka vanda.“
Jóhannes nefnir í því samhengi að horfa þurfi til þess að ferðaþjónustufyrirtæki geti skellt í lás eða hætt starfsemi á meðan þessu tímabili stendur ef það hentar þeim.
„Sum ferðaþjónustufyrirtæki þurfa að hafa einhverja lágmarksstarfssemi í gangi en önnur geta horft til þess að reyna að nýta innlenda markaðinn á einhvern máta eins og til dæmis veitingastaðir að einhverju leyti, einhver hótel og einhver afþreyingarfyrirtæki. Heilt yfir þá á að gera ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að geta hætt starfsemi til þess að minnka brennsluna á því fé sem til er í fyrirtækjunum eins mikið og mögulegt er,“ segir Jóhannes.
„Það hve hratt við komumst upp úr þessari efnahagslægð sem heimurinn er í núna mun velta að stórum hluta á því hversu mikill hluti verður eftir af ferðaþjónustunni þegar kemur fram á sumarið 2021. Góð staða þá byggir á því að ferðaþjónustufyrirtækin lifi. Ef of stór hluti ferðaþjónustufyrirtækja verður gjaldþrota mun taka fjölda ára að byggja aftur upp það sem við höfum byggt upp á síðastliðnum 10 árum.“