Óraunhæft að halda heilli grein uppi til langtíma

Erna Björg Sverrisdóttir aðal­hag­fræðingur Arion banka.
Erna Björg Sverrisdóttir aðal­hag­fræðingur Arion banka.

Komið gæti til þess að taka þyrfti pólitíska ákvörðun um hvaða fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, fái að lifa af og hver muni falla með efnahagslegum aðgerðum stjórnvalda. Óraunhæft sé að ætlast til þess að ríkissjóður geti ekki bara stutt við, heldur haldið uppi heilli atvinnugrein til lengri tíma, sérstaklega ef útlit er fyrir að ferðatakmarkanir muni vara enn lengur en upphaflega var áætlað. Þetta segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í samtali við mbl.is.

Varnirnar þéttar með aðgerðapakka 2

Í gær kynnti ríkisstjórnin aðgerðapakka tvö og segir Erna að þar séu varnir fyrir atvinnulífið þéttar umtalsvert og sérstaklega komið til móts við örfyrirtæki og lítil fyrirtæki. Ferðaþjónustan hefur hins vegar gagnrýnt harkalega að ekki séu sértækar aðgerðir fyrir greinina sem er líklega sú staka atvinnugrein sem verður hvað verst úti efnahagslega í þessum faraldri.

Erna segist skilja viðbrögðin, en að ekki sé verið að útiloka greinina alveg í aðgerðapakkanum. Þannig bendir hún á að meirihluti fyrirtækja í ferðaþjónustu séu lítil fyrirtæki sem úrræði gærdagsins geti náð til, meðal annars minni lán sem ríkissjóður mun ábyrgjast. Þá geti brúarlán og hlutabótaleiðin einnig hjálpað einhverjum fyrirtækjum.

„Fyrir mörg fyrirtæki er þetta bara dropi í hafið

„Ég skil gagnrýnina að einhverju leyti, en mér fannst kynningin að miklu leyti jákvætt skref sem efnahagslegar aðgerðir,“ segir Erna. Hún tekur þó fram að hún hafi búist við því að ríkisstjórnin myndi taka stærri skref í þetta skiptið. Nefnir hún sérstaklega hámark fyrrnefndra lána. „Fyrir mörg fyrirtæki er þetta bara dropi í hafið, sérstaklega ef þetta ástand ílengist eins og virðist stefna í.“

„Þegar ég horfi á aðgerðapakkann þá er þarna margt gríðarlega jákvætt. Ríkisstjórnin virðist tilbúin að stíga inn og er nokkuð sveigjanleg, þó maður hefði viljað sjá pakkann koma fyrr inn,“ segir Erna. Þá tekur hún fram að framsetningu á kynningu pakkans á vef stjórnvalda rími við það sem áður hafi komið fram að ekki eigi að bjarga öllum. „Það endurspeglast í þessum aðgerðum og tilkynningunni. Þegar farið er yfir efnahagshorfur og tekið mið af því að einhverjar takmarkanir verða þangað til efni koma fram, sem takmarka útbreiðslu veirunnar, eða bóluefni finnst, þá er skiljanlegt að það séu takmarkanir til greinar sem stóð jafnvel illa fyrir,“ segir hún.

Gæti komið til pólitískrar ákvörðunar hvaða fyrirtæki lifi og hver falli

„Það er ekki öfundsverð staða að þurfa að vega og meta þetta,“ segir Erna og vísar þá til þess hvaða fyrirtæki flokkist sem lífvænleg og hver ekki. Spurð hvort ríkissjóður geti verið súrefnistankur fyrir heila grein sem þessa í til lengri tíma meðan engar tekjur koma inn segir Erna það óraunhæft.

Mikið hefur verið talað um að styðja við lífvænleg fyrirtæki og kom það meðal annars fram strax í orðum fjármálaráðherra þegar fyrsti aðgerðapakkinn var kynntur. Erna segir þetta þó ekki svona einfalt. „Fæst fyrirtæki lifa tekjulaus í marga mánuði, jafnvel þó þau voru lífvænleg áður.“ Bendir hún á að ef ferðamenn muni til lengri tíma þurfa að fara í sóttkví við komuna hingað til lands, eða ef takmarkanir verða á ferðalögum fólks til lengri tíma á alþjóðavísu, þá verði ekki mikil ferðamennska hér á komandi misserum. „Jafnvel þótt ferðalög Íslendinga geti mildað höggið.“ Segir hún að þá gæti komið til þess að stjórnvöld ákveði með efnahagsaðgerðum sínum pólitískt hvaða fyrirtæki lifi og hver falli, enda ekki hægt að halda svo stórri atvinnugrein uppi til lengri tíma.

Algjört hrun hefur orðið í ferðaþjónustu eftir að faraldurinn kom …
Algjört hrun hefur orðið í ferðaþjónustu eftir að faraldurinn kom upp. Erna segir óraunhæft að ríkissjóður haldi heilli atvinnugrein uppi til lengri tíma haldi takmarkanir á ferðalögum áfram lengi. Segir hún að komið gæti til pólitískra ákvarðana varðandi hvaða fyrirtæki fái að lifa og hver falli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð út í hvaða fyrirtæki það séu í dag sem eru helst fyrir utan úrræði stjórnvalda segir Erna að hún horfi þar sérstaklega til millistórra fyrirtækja, þar sem stuðningslánin og lokunarstyrkir hjálpi lítið og þar sem brúarlánin séu ekki endilega rétti vettvangurinn. „Þar gæti þurft lausn sem er þarna á milli,“ segir hún og bætir við að þar horfi hún þvert á allar atvinnugreinar.

Seðlabankinn og ríkið „að missa momentum-ið aðeins

Nú þegar áhrifa veirunnar hefur þegar gætt í nokkurn tíma er hægt að horfa í baksýnisspegilinn og velta fyrir sér hvort eitthvað hefði mátt gera öðruvísi, þó slík speki sé alltaf háð því að vera eftiráspeki. Spurð út í aðgerðir hins opinbera og hvort eitthvað hefði mátt gera öðruvísi segir Erna að hún horfi þar helst til viðbragðshraða. „Ríkið hefði getað gripið fyrr til aðgerða, en það tekur auðvitað alltaf tíma að setja svona aðgerða pakka upp. Það hefur hins vegar tekið dálítið langan tíma að gera úrræðin aðgengileg fyrirtækjum. Brúarlánin og stuðningslánin þyrftu að vera tilbúin ekki seinna en í dag,“ segir hún.

Þá segir hún að Seðlabankinn hafi farið kröftugt af stað strax í mars, en svolítið misst dampinn síðan. Þannig hafi margir búist við frekari vaxtalækkunum sem ekki hafi komið til. „Mér finnst eins og Seðlabankinn og ríkið séu að missa momentum-ið aðeins. Það er verið að milda tjónið frekar en að koma í veg fyrir það,“ segir hún, en tekur fram að verið sé að takast á við aðstæður sem hafi ekki komið upp áður og séu síbreytilegar.

Besti hitamælirinn á hagkerfið sýnir alvarlega stöðu

Í gær komu tölur frá Vinnumálastofnun þar sem fram kom að 50 þúsund manns væru á einhverskonar bótum frá stofnuninni, hlutabótum eða atvinnuleysisbótum. Erna segir að þetta sé í raun sá hagvísir í dag sem sé besti hitamælirinn á hagkerfið. „Þetta er fjórðungur af vinnuaflinu. Það finnst mér sýna svart á hvítu hvað þetta er alvarleg staða.“

Vinnumálastofnun hefur spáð um 17% atvinnuleysi í apríl, en gert er ráð fyrir að atvinnuleysið muni eitthvað lækka þegar líði á sumarið og slakað verði meira á samkomubanninu. Erna er hins vegar ekki of bjartsýn á að atvinnuleysistölur nái að lækka mjög hratt á þessu ári. „Ég óttast að atvinnuleysið verði mun hærra þegar tekur að líða á árið en spáð hefur verið,“ segir hún og gerir ráð fyrir að meðalatvinnuleysi ársins verði mögulega í kringum 10%. Til samanburðar fór meðalatvinnuleysi ársins hæst upp í 8,1% eftir hrun, en það var árið 2010.  

50 þúsund manns fá greiddar hlutabætur eða fullar bætur frá …
50 þúsund manns fá greiddar hlutabætur eða fullar bætur frá Vinnumálastofnun. Erna bendir á að þetta sé fjórðungur vinnuafls hér á landi. mbl.is/​Hari

Minni hvati fyrir fólk að leita annað í dag

Talsverður munu er hins vegar á ástandinu núna og því sem var eftir fjármálahrunið. Nú sé meira atvinnuleysi, en staða ríkissjóðs og hins opinbera hafi verið allt önnur og betri. Það sama eigi við um skuldastöðu fyrirtækja og heimila.

Erna segir að ekki sé að sjá að fólksflutningur frá landinu sé jafn mikill núna og árin eftir hrun. Það sé þróun sem við höfum ekki áður sé þegar kreppir að, en í mars var til að mynda enn nettó fólksflutningur til landsins. „Fólk er ekki að færa sig um set. Það er sami faraldur að ganga yfir önnur lönd. Þetta er stór breyting og á sinn þátt í að atvinnuleysi er svona hátt.“ Hingað til hafi sveigjanleiki vinnuaflsins verið eitt af aðalsmerkjum vinnumarkaðarins hér. Erna segir að ekki sé víst að það verði staðan núna, meðal annars þar sem krónan hafi ekki hrunið líkt og áður, sem hafi skapað hvata fyrir fólk til að leita tækifæri utan landsteinanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK