Ísland og Icelandair komið vel út eftir krísur

Útlit er fyrir enn frekari uppsagnir hjá Icelandair og staða flugfélagsins er mjög alvarleg, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair. Forsvarsmenn flugfélagsins munu þurfa að sækja nýtt fjármagn fyrir félagið til þess að koma því í gegnum ástandið.

Bogi er þó bjartsýnn á að Icelandair muni að nýju standa styrkum fótum eftir það fordæmalausa ástand sem öll heimsbyggðin gengur nú í gegnum vegna heimsfaraldurs COVID-19. 

Erfið staða sem tekur sinn toll

240 starfsmönnum Icelandair var sagt upp fyrir mánuði síðan en Bogi segir að uppsagnirnar verði fleiri í þessum mánuði. Þá hefur starfshlutfall 92% starfsmanna flugfélagsins verið skert. Spurður hvernig starfsfólk fyrirtækisins hafi það segir Bogi:

„Þetta er náttúrulega erfið staða sem tekur mjög á alla. Ástandið hefur veruleg áhrif á flugfélög um allan heim og óvissan er mjög mikil, við vitum ekki hversu lengi þessi staða sem við erum í varir og það er það sem er svo erfitt. Maður hefur enga dagsetningu til þess að vinna með. Við erum að grípa til mjög mikilla aðgerða til þess að bregðast við því og við vonumst til þess að geta ráðið sem flesta aftur þegar eftirspurning vaknar aftur.“

Bjartsýnn fyrir ferðamannalandið Ísland

Til skamms tíma er staðan mjög alvarleg hjá Icelandair, rétt eins og öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, en Bogi er bjartsýnn á það sem tekur við eftir faraldurinn.

„Við þurfum að sækja nýtt fjármagn inn í félagið til þess að komast í gegnum þetta. Ég er bjartsýnn fyrir hönd Íslands sem ferðamannalands og okkar félags til lengri tíma eftir að ástandinu lýkur. Ég tel að Ísland hafi mjög mörg tækifæri sem ferðamannaland og líka Keflavík og Ísland sem tengimiðstöð alþjóðaflugs á milli norður-Ameríku og Evrópu. Við höfum séð það áður. Ísland og Icelandair hafa komið vel út eftir krísur.“

Staða stjórnvalda lítt öfundsverð

Ýmis ferðaþjónustufyrirtæki hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að rétta þeim ekki nægilega þétta hjálparhönd. Um það segir Bogi:

„Stjórnvöld eru náttúrulega ekki öfundsverð af sinni stöðu. Tekjubrestur í svona stórri atvinnugrein er svo gríðarlega stórt mál og erfitt að taka á því. Auðvitað er ástandið bara það alvarlegt fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að það er mjög eðlilegt að greinin kalli eftir aðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK