Hafa ekki sett fram skilyrði fyrir ríkisaðstoð

mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöld hafa ekki sett fram nein skilyrði vegna mögulegrar ríkisaðstoðar við Icelandair, að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefði sagt á starfsmannafundi að stjórnvöld krefðust þess að félagið þyrfti að fá inn nýtt hlutafé ef ríkisaðstoð ætti að koma til sögunnar. 

Möguleg ríkisaðstoð veltur á því hvernig spilast úr stöðunni, að sögn Bjarna. Í samtali við mbl.is segir hann að engin formleg skilyrði hafi verið sett fram. Bjarni svaraði því ekki hvort Icelandair hafi óskað eftir ríkisaðstoð. 

Í máli Boga á fundinum kom einnig fram að Icelandair gæti lifað út maí án tekna miðað við lausafjárstöðu félagsins í byrjun marsmánaðar, samkvæmt Viðskiptablaðinu. 

Eitt verðmætasta fyrirtæki Íslands

Nú hafa bæði frönsk og hollensk stjórnvöld ákveðið að veita sínum stærstu flugfélögum ríkisaðstoð. Spurður hver afstaða ríkisstjórnarinnar til slíkrar aðstoðar sé segir Bjarni: 

„Ég tel að við getum ekki tekið afstöðu til slíkra spurninga fyrr en aðgerðaáætlun Icelandair liggur fyrir.“

Fámennt er um að litast í Leifsstöð þessa dagana enda …
Fámennt er um að litast í Leifsstöð þessa dagana enda ferðamannastraumur takmarkaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sú aðgerðaáætlun er í vinnslu. Bjarni segir samt sem áður að fyrirtækið sé eitt það verðmætasta fyrir Ísland í alþjóðlegu samhengi. 

„Við lítum á það sem okkar skyldu að tryggja greiðar samgöngur við landið og þetta er eitt verðmætasta fyrirtæki Íslands í alþjóðlegu samhengi þannig að það skiptir verulega miklu máli að þeim takist vel til að vinna úr mjög þröngri stöðu. Á þessari stundu er ekki verið að setja saman nein skilyrði af okkar hálfu. Félagið er með fullt forræði yfir stöðunni og er að vinna í henni og möguleg aðkoma okkar ræðst af því hvernig úr öllu þessu spilast.“

Bjarni segir að stjórnvöldum hafi þótt það sín skylda að fylgjast grannt með stöðu félagsins. Þá hafi Icelandair verið í góðu sambandi við stjórnvöld og sýnt fullt gagnsæi um stöðu mála.

„Það hefur leitt til þess að við höfum komið upp starfshópi sem hefur fengið aðgang að gögnum frá félaginu og málið er bara statt þar. Icelandair hefur fullt forræði yfir öllum sínum málum og er að smíða eigin aðgerðaáætlun og hún er öll smíðuð af þeirra frumkvæði og þeirra ráðgjafa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK