Leigubílstjórar í fyrsta gír

Það kreppir að hjá leigubílstjórum sem víðar.
Það kreppir að hjá leigubílstjórum sem víðar. mbl.is/​Hari

Í upphafi kórónuveirufaraldursins hrundu tekjur hjá leigubílstjórum BSR um 90%, að sögn Guðmunds Barkar Thorarensen framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Nú, eftir að ökumennirnir hafa bætt við sig ýmissi sendiþjónustu fyrir veitingastaði og verslanir, eru viðskiptin „ekki nema“ 80% minni en fyrir kórónuhrun.

Það er nokkuð mikill samdráttur eins og gefur að skilja. „Fyrirtæki með fastan kostnað lifa ekki lengi svona hálfpartinn eða alveg tekjulaus,“ segir Guðmundur við mbl.is. Hann segir að þegar sterkustu fyrirtæki landsins tali um að þau geti þolað fimm mánuði tekjulaus, sé að vonum hæpið að ætla að minni fyrirtæki þoli mikið meira en örfáa mánuði sömuleiðis.

Atvinnuleysi blasir við

Aðgerðirnar sem BSR greip til voru að lækka stöðvargjaldið til ökumanna sinna í apríl, sem þýddi þó að tekjur miðstöðvarinnar drógust verulega saman. Ökumennirnir eru sjálfstæðir, aka eigin bíl en greiða stöðvargjald.

„Nú er svo komið að ökumennirnir hafa sumir hvorki upp í kostnað á stöðvargjöldum né til rekstrar á bílnum, jafnvel þó að þeir vinni í átta eða níu tíma á dag. Það er bara svo lítil hreyfing á fólki,“ segir Guðmundur.

Þar sem ökumennirnir eru sjálfstæðir og ekki á launaskrá hjá miðstöðinni er hlutabótaleiðin ekki farin í þeirra tilfelli, heldur væri það heldur atvinnuleysisskrá sem biði þeirra, ef ekki horfði brátt til betri vegar.

Augljóst samhengi 

„Það má orða þetta þannig að ef það er þunglyndi í þjóðfélaginu, dragast leigubílaviðskipti saman samstundis, alveg sama hvað veldur; stór vandamál eins og þessi eða bara leiðinlegar fréttir, eins og um fjöldauppsagnir, sem eitthvað var um í fyrra. Ef það er hins vegar jákvæðni í þjóðfélaginu er nóg að gera, þá er alltaf meiri hreyfing á fólki,“ segir Guðmundur.

Hans von er að bráðum fari þjóðfélagið að opnast og meira frelsi verði á ferðum fólks. Það skilar sér í meiri viðskiptum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK