Skandinavíska flugfélagið SAS tilkynnti í morgun um að fimm þúsund starfsmönnum félagsins yrði sagt upp. Kórónuveiran hefði þurrkað út alla spurn eftir flugferðum og það myndi taka einhver ár að koma flugrekstri í fyrra horf.
Um er að ræða 50% af öllum starfsmönnum SAS að sögn forstjóra félagsins, Rickard Gustafson.
Miðað við núverandi aðstæður og takmarkanir á ferðaheimildum á SAS ekki von á öðru en að starfsemi félagsins verði afar takmörkuð í sumar segir í fréttatilkynningu frá SAS. Spurn eftir flugferðum verði ekki svipuð því sem hún var fyrir COVID-19 fyrr en eftir einhver ár.
Gustafson segir í samtali við sænsku fréttastofuna TT að hann teldi að spurn eftir flugferðum myndi verða svipuð og áður en það verði ekki fyrr en árið 2022.
SAS sendi um 90% af starfsfólki félagsins í tímabundið leyfi um miðjan mars og samkvæmt upplýsingum frá félaginu í dag verður um 1.900 starfsmönnum í Svíþjóð sagt upp störfum, 1.300 í Noregi og 1.700 í Danmörku. Um starfsfólk í fullu starfi er að ræða.
Sænska og danska ríkið, sem eru stærstu hluthafar SAS, tilkynntu 17. mars að þau myndu leggja félaginu til rúmlega 275 milljónir evra í ríkisábyrgð til að verja það fyrir efnahagslegum áhrifum kórónukreppunnar. Í dag einskorðast flugáætlun SAS nánast við Noreg og Svíþjóð.