Eiga nóg til að starfa fram að útboði

mbl.is/Kristinn Magnússon

Icelandair á næga fjármuni til þess að geta starfað fram að hlutafjárútboði sem fyrirhugað er í júní, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair. Tap félagsins á fyrsta ársfjórðungi var 26,8 milljarðar, samkvæmt bráðabirgðatöl­um úr upp­gjöri fé­lags­ins sem birt­ar voru í Kaup­höll­inni í kvöld. 

Bogi segir í samtali við mbl.is að tapið gefi ekki tilefni til þess að flugfélagið grípi til einhverra hraðari aðgerða. Í upphafi árs var útlitið bjart hjá Icelandair, í raun svo bjart að gera mátti ráð fyrir ágætis hagnaði á árinu. 

„Reksturinn gekk vel fyrstu tvo mánuði ársins og gekk miklu betur en í fyrra. Áhrif COVID-19 komu mjög hratt inn og marsmánuður hrundi algjörlega svo við þurftum að færa niður eignir í uppgjörinu vegna þess. Þetta mun hafa áhrif á árið í heild sinni,“ segir Bogi.

Næsta ár verður veikara en áætlað var

Virðisrýrn­un viðskipta­vild­ar í tengsl­um við COVID-19 nam 14,8 millj­örðum króna á fyrsta ársfjórðungi en Bogi segir að hún hafi ekki áhrif á fjárstreymi eða lausafjárstöðu félagsins.

„Við færum viðskiptavildina niður vegna þess að við gerum ráð fyrir litlu flugi og litlum tekjum það sem eftir lifir árs. Næsta ár verður jafnframt veikara en áður var gert ráð fyrir. Þá þarf að afskrifa viðskiptavild en það hefur engin áhrif á fjárstreymið, lausafjársstöðu eða neitt þess háttar.“

Spurður hvort bráðabirgðatölur úr uppgjöri félagsins sýni betri eða verri stöðu en búast mátti við vegna ástandsins segir Bogi:

„Það er verulegur bati hjá okkur á milli ára á fyrstu mánuðunum en svo fer þetta mjög á verri veg vegna aðstæðna. Við vorum náttúrulega ekkert búnir að gera ráð fyrir því og erfitt að segja hvort þetta sé betra eða verra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK