Rekstartap Icelandair Group á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var 26,8 milljarðar króna, eða 208 milljónir dala, samkvæmt bráðabirgðatölum úr uppgjöri félagsins sem birtar voru í Kauphöllinni rétt í þessu. Um er að ræða svokallaða EBIT afkomu, en það er afkoma fyrir fjármagnskostnað og skatta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair, en uppgjörið í heild verður birt mánudaginn 4. maí.
Tekjur félagsins drógust saman um 16 prósent á tímabilinu og námu 26,9 milljörðum króna, samkvæmt bráðabirgðatölum.
Afkoma félagsins á fyrstu tveimur mánuðum ársins var í takt við væntingar og batnaði verulega á milli ára, en afkoman í mars var aftur á móti töluvert undir væntingum vegna áhrifa COVID-19 farsóttarinnar og afleiðinga hennar. En yfirgripsmiklar ferðatakmarkanir hafa leitt til mikils samdráttar í eftirspurn eftir flugi og ferðalögum og haft veruleg áhrif á starfsemi Icelandair Group.
Í tilkynningunni kemur fram að virðisrýrnun viðskiptavildar í tengslum við COVID-19 hafi numið 14,8 milljörðum króna. Þá hafi neikvæð þróun eldsneytisvarna, sem nam 6,6 milljörðum króna, einnig haft verulega neikvæð áhrif á afkomu félagsins í fjórðungnum.
Lausafjárstaða félagsins er enn yfir því viðmiði sem félagið vinnur eftir en stefna þess hefur verið sú að lausafjárstaða félagsins fari ekki undir 29 milljarða króna á hverjum tíma. Miðað við áætlanir um áframhaldandi lágmarkstekjuflæði, gerir félagið ráð fyrir að lausafjárstaða þess fari undir ofangreint viðmið á næstu vikum. Þá hefur félagið, í ljósi neikvæðrar þróunar eldsneytisvarna millifært 2,6 milljarða inn á bundna reikninga hjá mótaðilum sínum.
Eins og fram hefur komið, vinna stjórnendur félagsins nú að því að styrkja bæði lausafjár- og eiginfjárstöðu félagsins sem og tryggja arðbæran rekstur til lengri tíma. Til að þau markmið náist er félagið að undirbúa hlutafjárútboð, eins og tilkynnt hefur verið um, þar sem stefnt er að því að safna 29 milljörðum króna.
Fyrirhugað útboð er háð því að viðræður við stéttafélög skili árangri sem og samþykki hluthafafundar. Viðræður standa einnig yfir við aðra hagaðila, svo sem fjármögnunaraðila, flugvélaleigusala og birgja til að styrkja langtíma samkeppnishæfni félagsins enn frekar. Þá var tilkynnt í gær að íslensk stjórnvöld væru tilbúin að kanna möguleika á að veita félaginu lánalínu eða ábyrgð á lánum til félagsins. Er aðkoma stjórnvalda háð því að fullnægjandi árangur náist í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið, þ.m.t. að afla nýs hlutafjár, ásamt öðrum skilyrðum sem kunna að vera sett.
Eins og fram hefur komið, hefur félagið gripið til ýmissa aðgerða til að bæta lausafjárstöðu sína á undanförnum vikum. Til viðbótar, hefur félagið sagt stórum hluta starfsfólks upp störfum eins og tilkynnt var um þann 28. apríl sl. Samanlagt er gert ráð fyrir að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til muni minnka útflæði fjármagns um 1,7 milljarða króna á næstu þremur mánuðum, þegar tekið er tillit til mótvægisaðgerða íslenskra stjórnvalda þar sem hluti uppsagnarfrests starfsfólks er greiddur.