Uppgjörið breytir ekki afstöðu stjórnvalda

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Upplýsingar um stöðu Icelandair hafa verið kynntar stjórnvöldum og auðvitað þekkjum við það að félagið hefur orðið fyrir tekjufalli vegna þessa faraldurs. Þannig að þetta breytir engu um afstöðuna frá því á fimmtudag,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Bráðabirgðauppgjör Icelandair Group var birt í gærkvöldi og þar kom í ljós að rekstrartapið á fyrsta ársfjórðungi nam 26,8 milljörðum króna, eða 208 milljónum dala. Tekjur félagsins drógust saman um 16% á fyrstu þremur mánuðum ársins og námu 26,9 milljörðum króna.

Lausafjárstaða fer undir viðmið á næstu vikum

Í fréttatilkynningu frá Icelandair Group kom fram að lausafjárstaða félagsins væri enn yfir því viðmiði sem fé­lagið vinn­ur eft­ir en stefna þess hef­ur verið sú að lausa­fjárstaða fé­lags­ins fari ekki und­ir 29 millj­arða króna á hverj­um tíma. Miðað við áætlan­ir um áframhald­andi lág­marks­tekjuflæði, ger­ir fé­lagið ráð fyr­ir að lausa­fjárstaða þess fari und­ir ofan­greint viðmið á næstu vik­um.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að félagið eigi næga fjár­muni til þess að geta starfað fram að hluta­fjárút­boði sem fyr­irhugað er í júní. Þar verður markmiðið að safna 29 milljörðum króna, eða 200 milljónum dala, til að styrkja lausafjár- og eiginfjárstöðu félagsins sem og að tryggja arðbæran rekstur til lengri tíma.

Aðkoma stjórnvalda háð því að áform gangi eftir

Á rík­is­stjórn­ar­fundi á fimmtudaginn var samþykkt til­laga fjög­urra ráðherra um að ríkið væri til­búið að eiga sam­tal um mögu­lega veit­ingu lánalínu eða ábyrgð á lán­um til Icelanda­ir. Sama dag sagði forsætisráðherra í samtali við mbl.is að aðkoma stjórnvalda væri háð því að áform Icelandair og söfnun nýs hlutafjár gangi eftir og að lánveitendur taki „með fullnægjandi hætti þátt í þessu“ og hefur sú afstaða ekki breyst að sögn Katrínar.

„Félagið hefur kynnt bæði stöðuna og sínar áætlanir um að safna nýju hlutafé. Það liggur fyrir það sem við höfum sagt, að gangi þær áætlanir eftir þá erum við reiðubúin til að stíga inn með þeim hætti sem lýst hefur verið,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK