Bréf í Icelandair hafa hrapað um 40% í tæplega 9 milljón króna viðskiptum í Kauphöllinni í morgun. Með þessu er gengi félagsins komið niður í 1,4 krónur á hlut, en það er lægsta gengi félagsins frá upphafi. Hafði gengið áður farið niður í 1,814 krónur á hlut þann 14. október 2009.
Í tilkynningu félagsins á föstudaginn til Kauphallarinnar kom fram að samkvæmt bráðabirgðatölum úr uppgjöri félagsins væri rekstrartap Icelandair group á fyrsta ársfjórðungi 26,8 milljarðar króna. Drógust tekjur félagsins saman um 16% á tímabilinu, en afkoman hafði batnað á fyrstu tveimur mánuðum ársins, en versnaði svo mikið í mars í kjölfar afleiðinga kórónuveirufaraldursins.
Þá kom jafnfram fram að fyrirhugað væri að auka hlutafé félagsins um 30 milljarða hluta og safna þannig um 200 milljón dölum, sem er jafnvirði um 29,2 milljörðum króna.
Uppgjör félagsins vegna fyrsta ársfjórðungs verður birt síðar í dag.