Íslandsbanki hefur undirritað samkomulag við Seðlabanka Íslands um veitingu brúarláns, en þau eru hluti af aðgerðum stjórnvalda til að koma til móts við fyrirtæki vegna efnahagslegra afleiðinga af útbreiðslu kórónuveirunnar.
Íslenska ríkið mun gangast í ábyrgð fyrir allt að 70% af fjárhæð brúarlána en fyrirtæki þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, en frekari útfærsla skilyrðanna verður birt þegar hún liggur fyrir. Í umfjöllun Morgunblaðsins í gær kom fram að ein tillaga sem unnið væri með sneri að því að lánin geti verið til allt að 30 mánaða.
Bankinn hafði í gær tekið á móti umsóknum frá um 500 fyrirtækjum sem sótt hafa um greiðsluhlé til allt að sex mánaða. Af þeim umsóknum sem Íslandsbanki hefur afgreitt hefur innan við 3% verið hafnað.
Í tilkynningu frá Íslandsbanka vegna brúarlánanna er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að eftir farið verði á fullt að útfæra lánin þannig að þau komi til móts við þau fyrirtæki sem uppfylli skilyrðin. „Það er gott að samningar séu að nást enda mikilvægt að styðja við fyrirtækin í landinu sem eru í erfiðri stöðu. Nú þegar samningur við Seðlabankann er í höfn förum við á fulla ferð að vinna að útfærslu brúarlánanna svo hægt sé að koma til móts við þau fyrirtæki sem uppfylla viðeigandi skilyrði. Við höfum lengi sagt að við viljum vera hreyfiafl í samfélaginu og það er ekki síst á svona krefjandi tímum sem þess er þörf.“