Skeljungur býður öllum starfsmönnum sínum 100% vinnu og endurgreiðir Vinnumálastofnun kostnað vegna þeirra starfsmanna fyrirtækisins sem fengu hlutabótagreiðslur í apríl.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Fjallað hefur verið um málið í dag og þá staðreynd að Skeljungur, Hagar og Össur hafa nýtt sér hlutabótaleiðina eftir að hafa greitt hluthöfum sínum arð eða keypt eigin bréf.
Að athuguðu máli telur Skeljungur að ekki hafi verið rétt að nýta úrræðið. Skeljungur mun því bjóða starfsmönnum sínum 100% vinnu frá og með 1. maí og endurgreiða Vinnumálastofnun allan þann kostnað sem til féll vegna starfsmanna Skeljungs í aprílmánuði.
Allir starfsmenn Skeljungs hafa nú verið færðir í 100% vinnuhlutfall og munu því ekki sækja frekari bætur til Vinnumálastofnunar.