Þreyttur á að vandanum sé varpað á starfsfólk

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spyr hvort stjórnendur Icelandair séu …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spyr hvort stjórnendur Icelandair séu helsta fyrirstaðan að félaginu verði bjargað? mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist vera orðinn þreyttur á því að starfsfólk fyrirtækja sé gert að aðalvandamáli þegar illa gengur hjá fyrirtækjum. Vísar hann í bréf Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem hann sendi starfsmönnum í gær þar sem segir að fyrir hluthafafund félagsins 22. maí verði langtímasamninga við flugstéttir að liggja fyrir. Ragnar sendir starfsfólki Icelandair baráttukveðjur og segir það vera lausnina, ekki vandamálið. 

Lífeyrissjóður Verslunarmanna á 11,81% hlut í Icelandair Group en Ragnar segir í færslu á Facebook að hann geti nánast fullyrt að „lífeyrissjóðirnir opna ekki buddur sínar fyrir félag sem ætlar starfsfólki að afsala sér grundvallar réttindum.“

Eru stjórnendur Icelandair helsta fyrirstaðan?

Hann spyr hvort stjórnendur Icelandair séu helsta fyrirstaðan að félaginu verði bjargað? Hann segir stjórnina velta fortíðarvanda félagsins yfir á lífeyrissjóði og skattgreiðendur í nafni þess að vandamálið sé starfsfólkið „þegar málið snýst um það sem fáir virðast þora að segja. Að halda núverandi stjórnendaklíku við völd í einu af stærstu og mikilvægustu fyrirtækjum landsins.“

Ragnar segist vita til þess að nokkrir stjórnarmenn lífeyrissjóða hafi velt því fyrir sér hvort ekki þurfi að setja það sem skilyrði að stjórn og stjórnendum verði skipt út ef skoða eigi þáttöku í hlutafjárútboði.

Þá segir hann að flestum sé ljóst að Icelandair verði bjargað með einhverjum hætti. Að hans mati er það mögulega ekki versti kosturinn að gera það með sama hætti og með bankana eftir hrun. „Það mætti jafnvel skoða að starfsfólkið taki félagið yfir með stuðningi ríkisins og lífeyrissjóða. En hvernig sem það verður gert munum við tryggja að réttindi og samningar við starfsfólkið verði virt svo sómi sé af,“ skrifar Ragnar.



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK