Aron Þórður Albertsson
Til að forða Icelandair frá gjaldþroti verða flugfreyjur og flugmenn félagsins að taka á sig launalækkun á bilinu 50-60%. Þá verður nýr kjarasamningur að gilda til fimm ára og vera auk þess uppsegjanlegur að hálfu Icelandair að samningstíma loknum.
Þetta segir ráðgjafi eins af stóru hluthöfum Icelandair í Morgunblaðinu í dag. Að hans sögn er ekkert annað í stöðunni en að setja félagið í þrot og hefja endurreisn á nýrri kennitölu náist ekki samningar þar sem skera tekst niður einingarkostnað um framangreindar prósentutölur.
Að auki þurfi að fjarlægja fjölda annarra takmarkandi atriði úr samningunum. Þá verði stjórnendur Icelandair að gera starfsmönnum fyrirtækisins grein fyrir alvarleika stöðunnar. Það sé einungis hægt með því að sýna að þeir séu reiðubúnir að setja félagið í þrot. Lítillegar skerðingar muni jafnframt engu skipta fyrir félagið, sem nú standi frammi fyrir því að safna fjárhæð er nemi um þreföldu markaðsvirði þess.
Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum hluthafa sem Morgunblaðið hefur rætt við er hugsanlegt að væntanlegt hlutafjárútboð Icelandair geti tekið breytingum. Ekki sé hægt að útiloka að félagið muni þess í stað reyna að safna fjármagni með útgáfu breytanlegra skuldabréfa, en með því er fjárfestum veitt trygging af einhverju tagi gegn því að leggja félaginu til fé.