Írska flugfélagið Ryanair mun hefja um 40% af áætlunarflugferðum sínum frá og með 1. júlí en starfsemi flugfélagsins hefur að mestu legið niðri frá því um miðjan mars vegna kórónuveirunnar.
Þetta þýðir að daglega verður flogið um eitt þúsund flug á vegum félagsins til og frá um 90% af þeim áfangastöðum sem flogið var á fyrir COVID-19-faraldurinn. Bæði áhöfnum og farþegum verður gert skylt að vera með grímur fyrir andliti og að kanna hvort þeir séu með hita áður en farið er um borð. Salerni flugfélaganna verða opnuð en bannað að standa í biðröð fyrir framan þau.
Öll þjónusta um borð verður í lágmarki og aðeins boðið upp á mat og drykk sem er fyrirframpakkað í lokaðar umbúðir.