Fasteignafélagið Reitir hefur fært eignasafn félagsins niður um 2,1 milljarð króna og hefur þetta mikil áhrif á afkomu þess á fyrsta ársfjórðungi. Tap félagsins var rúmur milljarður króna samanborðið tæplega milljarðs hagnað fyrir ári. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins sem tilkynnt var til Kauphallar Íslands í gær.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir í tilkynningu: „Frá því fyrst fór að bera á áhrifum Covid-19-veirusýkingarinnar hafa stjórn og stjórnendur Reita gripið til ýmissa aðgerða til þess að styrkja félagið og auðvelda því að glíma við afleiðingar faraldursins. Í fyrri hluta mars var afkomuspá ársins tekin úr gildi enda mikil óvissa til staðar um hversu víðtæk áhrif yrðu á leigutaka félagsins. Einnig var ákveðið að fresta arðgreiðsludegi og endurkaupaáætlun félagsins var lokið.
Félagið hefur mætt þeim leigutökum sem orðið hafa fyrir verulegum áhrifum af stöðunni með skilningi á aðstæðum. Leigugreiðslum fyrir apríl- og maímánuð hefur verið frestað að hluta og mun félagið leita niðurstöðu þeirra mála í góðu samstarfi við viðkomandi aðila þegar aðstæður leyfa.
Staða Reita til þess að fást við þessar óvenjulegu aðstæður er sterk og lánaskilyrði félagsins vel innan þeirra marka sem félaginu eru sett. Sala eigna og sala skuldabréfa á fyrstu mánuðum ársins styrktu sjóðstöðu félagsins umtalsvert. Þá hefur félagið frestað áður samþykktri arðgreiðslu aðalfundar um óákveðinn tíma en ákvörðun um meðhöndlun arðsins þarf að liggja fyrir eigi síðar en 10. september nk. Þá hefur félagið gert ráðstafanir til að tryggja enn frekar aðgengi að lausu fé m.a. með heimild til frestunar afborgana af bankalánum og aðgangi að nýjum lánalínum, ef á þarf að halda.
Stjórnendur hafa metið virði eignasafns félagsins við lok fyrsta ársfjórðungs 2020. Þrátt fyrir töluverða óvissu um áhrif faraldursins er það mat stjórnenda nú að afleiðinga hans munu gæta út árið 2022 og að mestu áhrifin komi fram á þessu ári, en fari minnkandi eftir það. Af þessum sökum lækkar virði eigna félagsins sem nemur 2.135 millj. kr. í árshlutauppgjörinu. Félagið hefur mörg undangengin ár beitt varfærnum forsendum við mat á framtíðarleigutekjum og virði eigna sem af þeim er leitt og sér nú að því gættu ekki efni til frekari varúðarfærslna við virðismatið.
Samhliða fækkun Covid-tilfella í samfélaginu eykst aðsókn í Kringluna og leigutakar okkar víðs vegar sjá starfsemi færast í hefðbundnara form. Reitir horfa til lengri framtíðar og vinna áfram að skipulagi þróunarreita sem koma til með að auka fjölbreytni í eignasafni Reita til lengri tíma litið.“
Samstæða Reita samanstendur af móðurfélaginu, Reitum fasteignafélagi hf., ásamt dótturfélögum, sem öll eru að fullu í eigu móðurfélagsins. Starfsemi félagsins felst í eignarhaldi, útleigu og umsýslu atvinnuhúsnæðis sem er að stærstum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 140 talsins, um 460 þúsund fermetrar að stærð.
Meðal fasteigna félagsins má nefna stærstan hluta verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, Spöngina og Holtagarða, Hótel Borg, Hotel Hilton Reykjavík Nordica og Icelandair Hotel Reykjavík Natura og skrifstofubyggingar á Höfðabakka 9 og við Vínlandsleið ásamt húsnæði höfuðstöðva Sjóvár, Origo og Advania. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög.