„Við getum nálgast vélar hratt og örugglega ef svo ber undir. Við erum ekki á leið í samkeppni við Icelandair en gætum mögulega aðstoðað við að halda flugsamgöngum uppi tímabundið,“ segir Sigurður Örn Ágústsson, stjórnarformaður flugfélagsins Bláfugls (e. Bluebird Nordic).
Vísar hann í máli sínu til erfiðrar stöðu Icelandair en að hans sögn getur Bláfugl nálgast vélar með skömmum fyrirvara fari svo að Icelandair geti ekki haldið uppi flugsamgöngum til og frá landinu. Er flugfélagið með handbækur tilbúnar auk þess sem ferli við öflun leyfa til að hefja farþegaflutninga er í raun tilbúið.
Bláfugl er í eigu Avia Solutions Group, sem er stærsta fyrirtæki Mið- og Austur-Evrópu í flugtengdri þjónustu. Meðal fyrirtækja í eigu Avia Solutions Group eru flugfélögin Avion Express í Litháen og Smartlinks í Lettlandi, en bæði eru þau með sterka og góða tengingu við Ísland. Ráðgera má að Bláfugl eigi af þeim sökum í litlum vandræðum með að nálgast vélar og flugáhafnir þaðan beri svo við.
Ítarlegri umfjöllun um málið má finna á forsíðu ViðskiptaMogga dagsins