Stefán E. Stefánsson
Talsvert fjölgaði í hópi þeirra viðskiptavina Icelandair Group sem kölluðu eftir endurgreiðslu vegna niðurfelldra fluga í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því yfir í byrjun vikunnar að flugfélagið stefndi í þrot að öllu óbreyttu. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Mikilvægasta leiðin sem félagið hefur til þess að viðhalda lausafjárstöðu sinni er að fá viðskiptavini til þess að umbreyta kröfum í inneignarnótur. Í upphafi árs voru bókfærðar fyrirframinnheimtar tekjur vegna farmiðasölu að fjárhæð 154,2 milljónir dollara, jafnvirði 22,5 milljarða króna. Í nýjum árshlutareikningi eru þessar tekjur aðeins bókfærðar á 26,9 milljónir dollara, jafnvirði 3,9 milljarða króna.
Ástæðan er sú að félagið hefur ákveðið að stíga varúðarskref og skilgreina kröfur viðskiptavina að stórum hluta sem annars konar skammtímaskuldir en þær sem felast í óflognum ferðum. Virðist sú skuldfærsla nema allt að 232,1 milljón dollara, jafnvirði 33,9 milljarða króna þótt ekki sé upplýst með nákvæmum hætti í reikningnum hverjar skuldbindingar félagsins vegna fyrirframinnheimtra flugfargjalda í raun eru, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.