Telur að lækkunin skili sér í lægri íbúðalánsvöxtum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri segist telja að íslensku viðskiptabankarnir geti að einhverju leyti skilað þeirri vaxtalækkun sem Seðlabankinn kynnti í dag yfir í lægri vexti á húsnæðislán sem þeir bjóða upp á til almennings. Þetta kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar í dag, en fyrr í morgun var kynnt að nefndin hefði ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentustig niður í 1%.

Á fundinum var Ásgeir spurður út í áhrif á vaxtalækkuninni á vexti bankanna. Var meðal annars bent á að þegar stýrivextir væru orðnir jafn lágir og raun ber vitni ættu bankastofnanir jafnan erfitt með að skila því út í vaxtastigið. Þar spilaði meðal annars að til staðar væri útlánaáhætta fyrir bankana sem nú væri til staðar og hún væri mögulega að hafa meiri áhrif á vilja bankanna til að auka útlán frekar.

Ásgeir sagði það rétt að þegar stýrivextir væru komnir mjög lágt væri erfitt fyrir bankana að skila vaxtalækkunum út í lægri útlánavexti. Tók hann þó fram að peningastefnan hefði áhrif í gegnum fleiri leiðir en bankakerfið, til dæmis á skuldabréfamarkaði.

Ættu að geta skilað lækkuninni út í húsnæðislánavexti

Hann tók þó skýrt fram að hann teldi að bankarnir gætu skilað einhverju af þessari stýrivaxtalækkun út í lægri húsnæðislánavexti. „Við gerum ráð fyrir að þessir kanalar virki.“

Sagði hann að við fordæmalausan samdrátt eins og nú standi yfir, en bankinn spáir því að samdráttur þetta árið verði 8%, vilji bankinn nýta vaxtatækið eins og hægt er til að örva útlán.

Útilokar ekki frekari vaxtalækkanir

Ásgeir útilokaði þó ekki frekari vaxtalækkanir og sagði að þótt nefndin teldi 0,75 prósentustiga lækkun núna talsvert mikla væri ekkert útilokað á komandi misserum. Tók hann fram að bankinn hefði einnig yfir öðrum stýritækjum að ráða. „Við erum með heilt tækjabox,“ sagði hann, en áður hefur Seðlabankinn meðal annars aflétt sveiflujöfnunaraukanum.

Ígildi vaxtalækkunar

Þá var samhliða vaxtalækkun í dag greint frá því að hætt yrði að bjóða upp á 30 daga bundin innlán hjá Seðlabankanum. Kom fram að það ætti að fela í sér að stýrivextir bankans yrðu virkari og að vaxtaskilaboð bankans yrðu skýrari samhliða því að auka laust fé í umferð.

Ásgeir sagði að þessir 30 daga vextir hefðu á sínum tíma verið stífingartæki við gjaldeyriskaup bankans. Sá tími væri nú að einhverju leyti liðinn og hafi torveldað miðlun peningastefnunefndarinnar, sérstaklega til skemmri tíma.

„Álítum það að þetta myndi vera ígildi vaxtalækkunar og liðka fyrir miðlun út á [vaxta]rófið,“ sagði Ásgeir á fundinum, þegar hann var spurður hvort peningastefnunefndin hefði ekki íhugað að lækka stýrivextina enn frekar.

Njótum nú góðs af hörðum kröfum

Ásgeir tók fram að hann teldi bankakerfið ráða mjög vel við núverandi áfall og að síðustu ársfjórðungsuppgjör staðfestu það. Sagðist hann ekki hafa sérstakar áhyggjur af kerfislegum vandræðum í krónukerfinu og að undanfarin ár hafi verið byggt upp kerfi með hörðustu kröfum sem um geti í hinu vestræna kerfi. Þar vísaði hann meðal annars til eiginfjárkvaða sem hafa verið settar á fjármálafyrirtæki. „Við erum að miklu leyti að njóta góðs af því núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK