Útlit fyrir langvinnan skaða fyrir þjóðarbúið

Seðlabankinn segir að útlit sé fyrir að farsóttin valdi þjóðarbúinu …
Seðlabankinn segir að útlit sé fyrir að farsóttin valdi þjóðarbúinu langvinnum skaða þegar horft sé til næstu ára. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Í spá Seðlabankans sem liggur til grundvallar vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, sem birt var í morgun, taka efnahagsumsvif smám saman að færast í eðlilegt horf á seinni hluta þessa árs, en ekki er gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn fari að koma til landsins að ráði fyrr en á næsta ári. Þetta kemur fram í Peningamálum bankans sem birt voru í morgun.

Í morgun var tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar um að lækka stýrivexti um 0,75 prósentustig, niður í 1%. Stýri­vext­ir bank­ans hafa aldrei áður verið jafn lág­ir en lækk­un­in er í takt við vænt­ing­ar markaðar­ins. 

Spáir bankinn því að fjöldi ferðamanna á þessu ári muni dragast saman um 80% og að útflutningur dragist saman um þriðjung á árinu, en það yrði mesti samdráttur í útflutningi á einu ári frá upphafi þjóðhagsreikninga hér á landi. Spáir bankinn því jafnframt að atvinnuleysi á einum fjórðungi verði hæst á þriðja ársfjórðungi í 12%, en muni svo lækka og verða 9% að meðaltali á árinu öllu.

Í peningamálum segir jafnframt að þó efnahagsumsvifin taki smám saman að færast í eðlilegt horf og ágætishagvexti sé spáð á næstu tveimur árum sé útlit fyrir að farsóttin valdi þjóðarbúinu langvinnum skaða. Gangi spáin eftir yrði landsframleiðslan í lok spátímans u.þ.b. 6% undir því sem spáð var í febrúar fyrr á þessu ári, eða sem samsvarar um 180 milljörðum.

Seðlabankinn tekur fram að spá bankans sé mikilli óvissu háð og það eigi til dæmis við um hversu djúp og langvinn kreppan verði í ár. Fari það eftir þróun farsóttarinnar á heimsvísu, getu heilbrigðiskerfa við að ráða niðurlögum hennar. Vísað er í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gerir ráð fyrir að heimsfaraldurinn nái hámarki á öðrum ársfjórðungi, sem nú er í gangi, og taki síðan að ganga niður.

Samhliða því yrði hægt og bítandi slakað á þeim sóttvarnaaðgerðum sem beitt hefur verið til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Samkvæmt þessu gerir sjóðurinn ráð fyrir að heimshagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði að meðaltali 5,8%. Þetta er hins vegar háð því hversu langvinnur faraldurinn verður.

Fleira getur haft áhrif á efnahagsframvinduna á alþjóðavísu að mati sjóðsins, en þannig gæti fjármagnsútflæði og mikil lækkun hrávöruverðs aukið áfallið fyrir sum ríki. Samdrátturinn í heimsbúskapnum gæti því jafnvel orðið tvöfalt meiri en sjóðurinn spáir ef farsóttin gengur hægar niður og hætta er á að bati næsta árs verði að engu ef farsóttin blossar upp á ný.

Takist hins vegar að finna bóluefni við sjúkdómnum gæti heimsbúskapurinn tekið fyrr og meira við sér.

Peningamál Seðlabankans sem komu út í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK