Seðlabankinn hefur leiðir til þess að ýta á viðskiptabankana um að draga úr vaxtamun sem aukist hefur að undanförnu. Þetta segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í ítarlegu viðtali við Morgunblaðinu í dag.
Í nýjustu útgáfu Peningamála sem kom út í gær kemur fram að vaxtaálag útlána hjá bönkunum hefur vaxið mikið að undanförnu. Segir Ásgeir að nú ætli bankinn að beina sjónum sínum að þessu úrlausnarefni, ekki hafi verið heppilegt að standa í því á sama tíma og gengið var frá samningum um bankana um útfærslu svokallaðra viðbótar- og brúarlána.
Ásgeir segir einnig að ríkissjóður hafi í of ríkum mæli verið kallaður til björgunarstarfa án þess að allir hlutaðeigendur hafi axlað sína ábyrgð. Það hafi m.a. gerst þegar hlutabótaleið og önnur úrræði á vinnumarkaði voru kynnt og það hafi gerst „án þess að verkalýðsfélögin tækju að öllu leyti ábyrgð á ástandinu og því mikla atvinnuleysi sem nú hefur skapast“.
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er ekki gert ráð fyrir nema um 50 þúsund ferðamönnum til landsins á síðari helmingi ársins. Sú staða leiði m.a. til þess að atvinnuleysi muni mælast 12%. Samkvæmt því má gera ráð fyrir því að um 26 þúsund manns verði á atvinnuleysisbótaskrá – fleiri en nokkru sinni fyrr í sögunni. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir þó að mikil óvissa sé í spánni. Ferðaþjónustan geti mögulega náð sér meira á strik en spáin geri ráð fyrir og það muni leiða til minna atvinnuleysis. Hins vegar sé tekið tillit til áforma ríkisstjórnarinnar um að örva atvinnulífið í henni.
Flest bendir til þess að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara verði mikið á komandi misserum.