Árni Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR, en hann tekur við af Ólafi G. Flóvenz sem hefur veitt ÍSOR forstöðu frá stofnun, en snýr sér nú alfarið að sérfræði- og vísindastörfum.
Staða forstjóra ÍSOR var auglýst í byrjun mars og rann umsóknarfrestur út þann 30. mars. Ráðgefandi hæfnisnefnd var falið að meta hæfi og hæfni umsækjenda. Var það síðan einróma niðurstaða stjórnar ÍSOR að Árni væri hæfasti umsækjandinn.
Árni starfaði hjá verkfræðistofunni Mannvit árin 2013-2020, lengst af sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða og síðar sem framkvæmdastjóri Mannvits í Ungverjalandi. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri endurnýjanlegrar orku hjá Íslandsbanka (Glitni) á árunum 2006-2013 en í því starfi stofnaði hann og stýrði alþjóðlegri deild bankans á sviði endurnýjanlegrar orku. Hann var félagsmálaráðherra árin 2003-2006 auk þess að vera aðstoðarmaður ráðherra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og síðar í utanríkisráðuneytinu árin 1995-2002.
Árni hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, félaga og stofnana innanlands og erlendis, meðal annars var hann varaformaður Íslenska orkuklasans, í stjórn Ameríska jarðhitasambandsins (GEA) og í stjórn Ameríska endurnýjanlega orkuráðsins (ACORE). Þá var hann um árabil stjórnarformaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, átti sæti í stjórn markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar og stýrði átaksverkefni stjórnvalda um jarðhitaleit á köldum svæðum.
Árni hefur lokið MIB-námi í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og lauk prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1983.
Árni mun taka við starfinu 1. júlí.