Sigmar Vilhjálmsson athafnamaður, gjarnan þekktur sem Simmi Vill, leitar þessa dagana að 110 til 120 starfsmönnum, 70 manns sem munu starfa fyrir MiniGarðinn í Skútuvogi og 40 til 50 manns á mat- og sportbarnum Barion sem opnar nýtt útibú bráðlega þar sem Bryggjan brugghús var áður til húsa. 70 störf af þessum 120 voru auglýst fyrr í dag og nú þegar hafa umsóknir borist.
Þegar blaðamaður náði tali af Sigmari var hann staddur á Barion að smakka bjór en ætlunin er að halda áfram með bjórframleiðslu í húsnæðinu, eins og áður var hjá Bryggjunni.
„Það er bara gaman og jákvætt að geta sett í gang verkefni sem geta skapað vinnu á þessum tímum,“ segir Sigmar.
Hann hefur nú auglýst eftir þjónum og barþjónum sem og starfsfólki í móttöku og eldhús en Sigmar segist vita af mörgum gríðarlega hæfum einstaklingum sem séu nú atvinnulausir og hafi hug á að sækja um.
MiniGarðurinn er í 1.850 fermetra húsnæði við Skútuvog 2 en þar verða tveir níu holu mínígolfvellir, sportbar og veitingastaðurinn Flavor þar sem verður boðið upp á smárétti.
„Ég hef stundum líkt þessu við Forrétta- og tapasbarinn í skyndibita,“ segir Sigmar. Fyrirhugað er að opna MiniGarðinn í lok júní en Barion er nú tilbúinn og bíður Sigmar í raun einungis eftir veitingaleyfi svo hann geti opnað dyrnar fyrir bjórþyrstum Íslendingum.
Sigmar opnaði fyrsta útibú Barion í Mosfellsbæ í lok síðasta árs og sér hann fyrir sér að starfsemin við höfnina í Reykjavík verði svipuð og mikið verði um viðburði.
„Ég sé fyrir mér að við munum standa fyrir viðburðum, við sögðum alltaf að Barion væri félagsheimili fullorðna fólksins í Mosfellsbæ og við teljum að það þurfi félagsheimili fullorðna fólksins í Reykjavík líka.“
Spurður hvort heimsfaraldur kórónuveiru hafi ekki sett strik í reikninginn segir Sigmar að hún hafi haft takmörkuð áhrif á áformin en hann bindi þó vonir við að opnunartími veitingastaða verði lengdur til eitt eða þrjú á næstu vikum.
„Við höfum alltaf treyst á viðskipti frá Íslendingum og munum gera það áfram, sama hvort um Hlöllabáta, Barion eða MiniGarðinn sé að ræða,“ segir Sigmar sem á helminginn í Hlöllabátum.
„Þetta er allt ætlað Íslendingum þótt ferðamenn séu auðvitað velkomnir en við erum hvorki í verði né áherslum að leggja áherslu á það að fá ferðamenn sérstaklega.“