Ríkissjóður hefur gefið út skuldabréf upp á 500 milljónir evra. Líkt og greint var frá í ViðskiptaMogganum í morgun fékk ríkið fjármálafyrirtækin JP Morgan, Citi og Morgan Stanley til þess að annast útgáfuna og sölu bréfanna. Voru kynningarfundir haldnir í gær og fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins voru sömuleiðis til viðtals við áhugasama fjárfesta.
Mikil eftirspurn reyndist vera eftir bréfunum og var 2,7 milljarðar evra þegar uppi var staðið eða ríflega fimmföld. Í upplýsingum varðandi útboðið var tilgreint að kjörin sem yrðu á bréfunum myndu ráðast af spurn eftir þeim.
Niðurstaða útboðsins var sú að skuldabréfin sem eru á gjalddaga 3. júní 2026 bera 90 punkta álag á millibankavexti (e. mid swaps). Í fyrra réðst íslenska ríkið í áþekka útgáfu með gjalddaga 2024 og báru þau bréf 28 punkta álag.
Þegar ViðskiptaMogginn leitaði upplýsinga hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í gær var svar upplýsingafulltrúa þess að ráðuneytið myndi ekki tjá sig að sinni.